Nútímanum fylgja nýjar áskoranir og aukin þekking á því sem hefur áhrif á líðan barna. Vitað er að börn í dag greina frá aukinni vanlíðan, sérstaklega kvíða. Ekki er vitað að fullu hvað veldur, en þó hafa komið skýrar vísbendingar um að börn í dag séu ekki að fá þann svefn sem þau þurfa. Margir hafa einnig áhyggjur af áhrifum samfélagsmiðla á sjálfsmat og kvíða, auk þess sem aukin skjánnotkun er sennilegur áhrifaþáttur í seinkuðum svefntíma barna og unglinga.

Hér má finna uppástungur að umræðupunktum fyrir bekkjarkvöld um mikilvæg atriði í uppeldi og mótun barna og unglinga. Við leggjum til að foreldrafélög sæki sér aukna fræðslu um atriði á þessum lista eftir óskum og þörfum.  Bekkjarsáttmálinn sem er opið skjal fyrir þá foreldra sem óska þess að taka höndum saman og samræma aðgerðir í uppeldi og eftirliti með börnum og unglingum nútímans.

Bekkjarsáttmálinn ætti að auðvelda foreldrum að framfylgja reglum sem þeir tala margir hverjir um að sé nánast ómögulegt að setja fyrir barnið á meðan aðrir vinir séu ekki með nein slík mörk, svipað og gert hefur verið með útivistartíma.

Þau viðmið sem nefnd eru varðandi skjánotkun og tíma eru almenn og algeng í umræðunni í dag, en fyrir þeim liggja ekki langtímarannsóknir. Börn eru mjög misjöfn að upplagi og þörfum. Foreldrar gætu sammælst um að setja mörk á skjánotkun sem setur pressu á þátttöku annarra í bekknum (t.d. Fortnitehópa eftir 20.00 á kvöldin eða aðgengi að síma og þar með Snapchat/Instagram hópspjalli) en valið að leyfa sínu barni meiri skjátíma en aðrir foreldrar.

Hér eru helstu atriðin sem við mælum með að tekin séu fyrir í foreldrahópnum og sett fram í Bekkjarsáttmála eftir áhuga.