Það er mikilvægt að eiga góða að sem þykja vænt um mann, styðja mann og eru til í að gera hluti með manni. Það er einnig mikilvægt að geta þótt vænt um sjálfan sig, geta stutt og hvatt sjálfan sig áfram og gert hluti einn með sjálfum sér sem manni þykja skemmtilegir. Samfélagið hefur hins vegar kennt okkur að við eigum að vera góð og ljúf við aðra en ekki svo góð við okkur. Því höfum við tilhneigingu til að skamma okkur sjálf þegar við gerum mistök eða okkur líður illa. Þú munt hinsvegar eyða allri ævinni með sjálfum þér og þá getur verið gott að vera sinn eigin góði vinur. Þessi æfing kennir þér og barninu þínu að vera þinn eigin vinur, að tala við sjálfa/n þig af væntumþykju og hvetja þig áfram.

Gerðu æfinguna fyrst í eina viku og æfðu hana svo með barninu.

Velviljaður vinur

  1. Lokaðu augunum þínum með því að taka nokkur djúp andartök, leyfðu öxlunum að slaka á frá eyrunum.
  2. Beindu athyglinni að andardrættinum, finndu hvernig líkaminn andar inn og út.
  3. Taktu þér tíma til þess að ímynda þér stað þar sem þér finnst þú örugg/ur, róleg/ur og afslöppuð/aður. Þetta má vera raunverulegur staður eða ímyndaður. Staður þar sem þú andar auðveldlega og ert áhyggjulaus. Ef til vill er þessi staður í náttúrunni. Á strönd, í skógi við læk eða jafnvel hornið í svefnherberginu þínu eða heima hjá góðum vini. Ímyndaðu þér staðinn í eins miklum smáatriðum og þú getur. Hljóðin, lyktina og líðanina.
  4. Ímyndaðu þér nú að þú hafir fengið gest. Hlýjan og góðan vin. Þetta er einhver sem þykir vænt um þig og viðurkennir þig eins og þú ert. Þetta má vera vinur, amma og afi, uppáhalds kennari, persóna úr bók sem þú hefur lesið, gæludýr eða jafnvel hetja úr teiknimyndasögu eða bíómynd.
  5. Ímyndaðu þér að gesturinn heilsi þér. Hvað segir hann við þig og hvað gerir hann?
  6. Ímyndaðu þér nú að gesturinn hrósi þér fyrir góðan kost sem þú hefur. Hvaða kost velur hann?
  7. Ímyndaðu þér nú að gesturinn vilji hvetja þig áfram. Hvað segir hann við þig?
  8. Ímyndaðu þér að lokum að þú og gesturinn sitji aðeins saman í þögn og ró. Ykkur líður bara vel saman og enginn þarf að fara eða gera eittthvað annað.Reyndu að finna hvað nærveran er góð og hvað það gott að mega bara vera maður sjálfur.
  9. Svo fer gesturinn og segir þér að hann/hún sjái að þú sért að gera þitt besta í lífinu - eins og allir aðrir. Finndu hvað það er gott að þurfa ekki að vera eitthvað annað og meira en þú ert.

Þessi skref er til að þjálfa þig að vera þinn eigin vinur. Allt sem ímyndaði gesturinn segir við þig getur þú sagt við sjálfa/n þig hvenær sem er, þegar þú stendur frammi fyrir vandamáli eða líður kannski aðeins illa.