Ræðið þessi atriði hvert og eitt við unglinginn. Hvert og eitt þeirra gefur tækifæri til samtals og þess að taka dæmi um samskipti sem hafa mögulega þegar átt sér stað. Sum orðin þarf að skýra og það er bara gott að eiga samtal um hvað þau þýða.

Óhjákvæmilegt er að lenda í ágreiningi við vini sína. Þegar það gerist skaltu hafa eftirfarandi í huga.

  1. Ekki kalla vin þinn illum nöfnum meðan á rifrildinu stendur.
  2. Ræðið vandamálið - ekki ráðast að manneskjunni (til dæmis “þú ert….” setningar).
  3. Ekki alhæfa (“þú ert alltaf að….” eða “þú gerir þetta aldrei”).
  4. Ekki trufla meðan vinur þinn reynir að skýra sína hlið.
  5. Reyndu að skýra þína hlið á rólegan hátt.  Stattu með þér.
  6. Ef þú ert reiður reyndu þá að finna hvort einhverjar aðrar tilfinningar séu á bak við reiðina og reyndu að tjá þær. Það er nefnilega oft þannig. Til dæmis getur þú notað þessi tilfinningakort (linka). Það getur þá hjálpað að tala um þær tilfinningar frekar en að sýna bara reiðina.
  7. Ekki labba í burtu nema þú sjáir enga aðra leið. Segðu þá við vin þinn að þú þurfir tíma til að róa þig, hugsa málið.
  8. Ekki reyna að lesa huga vinar þíns - ákveða fyrirfram eða giska á hvað hann er að meina eða hugsa. Rannsóknir sýna að við erum ansi léleg í þessu og fáum oftast ranga niðurstöðu. Spyrjum frekar beint út.
  9. Reyndu að vera ekki bara í vörn. Þá ertu til dæmis að hugsa um hvað þú ætlar að segja næst meðan vinur þinn talar - í stað þess að virkilega hlusta. Mundu að mjög mörg rifrildi eru byggð á misskilningi.
  10. Stundum er allt í lagi að vera sammála um að vera ósammála.