Hugsanaskráning er gott verkfæri til að hjálpa okkur að takast á við tilfinningar okkar.

Markmiðið er að grípa hugsanir í aðstæðum þar sem við upplifum tilfinningar eins og t.d. kvíða eða reiði. Með skráningunni gefst okkur tækifæri á að átta okkur betur á tilfinningum okkar, í hvaða aðstæðum við megum búast við þeim og hvernig þær lýsa sér. Það er grunnurinn sem þarf til að geta unnið úr þeim. 

  • Prentið út skráninguna og farið yfir hana daglega næstu 7 daga.
  • Ræðið tilfinningar og styrkleika þeirra, líkamleg einkenni og hugsanir. Þá er einnig hægt að ræða hvaða hegðun kom upp og hvernig brugðist var við tilfinningunni.
  • Þessa æfingu má nota fyrir börn en hún er einnig góð fyrir foreldra.

Fyrir yngri börnin er hægt að nota hluta af hugsanaskráningunni. Rannsóknir sýna að því yngri sem börn eru, því erfiðara getur það orðið að vinna með hugræna þáttinn í verkefnum. Það gæti því verið hjálplegra að leggja meiri áherslu á góða tilfinningafræðslu, búa til tilfinningaskrímsli til að aðskilja tilfinningavandann frá barninu og spyrja spurninga sem svipa til hugsanaskráningarinnar í samtali.  

Barnið teiknar eða klippir út sína eigin dúkkulísu og merkir við hvar það finnur fyrir t.d. kvíða í líkamanum. Oft er það maginn en það getur einnig verið hjartsláttur, andardráttur, titringur í höndum eða fótum, hausverkur, þyngsli við bringu, sviti eða þörf til að fara á klósettið.

Hitamælirinn er síðan notaður til að meta styrkleika tilfinningarinnar, er hún MIKIL eða lítil. Þetta hjálpar til við samtal foreldra og barns í aðstæðum sem vekja upp kvíða. Þá er hægt að fylgjast með kvíðanum og sjá hvernig tilfinningin líður alltaf hjá á endanum.

Dæmi: Fyrsti skóladagur vekur yfirleitt upp MIKINN kvíða meðal barna (kannski 8/10 á hitamælinum). Nokkrum dögum seinna fer hann þó yfirleitt minnkandi (kannski 3/10 á hitamælinum). Það er af því að aðstæður eru okkur ekki lengur alveg ókunnugar, við höfum lært meira um þær. Þannig lærum við smátt og smátt að aðstæðurnar eru ekki jafn hræðilegar eins og kvíðinn sannfærði okkur um fyrst. Og það mikilvægasta, trú okkar á eigin getu verður meiri og við verðum sterkari fyrir vikið.