Börn eru góð í hlustun ef þau hafa áhuga á því sem fram fer og svo getur athyglin farið út um allt þess á milli eins og eðlilegt er. Eftir því sem börn verða eldri og jafnvel komin í grunnskóla getur verið gott að ræða við þau um af hverju það er mikilvægt að kunna að hlusta. Hlustun verður nefnilega mikilvægari í félagslegu samhengi eftir því sem þau verða eldri.

Þegar við hlustum þá sýnum við áhuga - og áhugi hjálpar okkur að eignast og viðhalda vináttu. Eftir tilkomu snjallsíma þá hefur orðið sífellt mikilvægara að þjálfa hlustun - bæði fyrir börn og fullorðna. Mikilvægt er að halda því samt til haga að stundum getur maður átt daga þar sem einlæg hlustun er erfið og það er allt í lagi. Aðalatriðið er að vita af því að góð virk hlustun skiptir máli í vináttu.

Virk hlustun er því sniðug leið til að eignast vini. Stundum er þetta líka kallað að "hlusta með öllum líkamanum."

Í þessu verkefni æfum við hlustun með þeim yngstu. Hér að neðan er hægt að sækja tvær myndir (pdf hnappur) sem hægt er að prenta út.  Þær lýsa því hvernig við kyrrum hugann og líkamann---- og hlustum. Prentið myndirnar út og ræðið og æfið saman. Á þessum aldri setjum við nefnilega niður grunninn að því sem koma skal.

Munum að athygli barna á grunnstigi er samt þannig að þau geta aldrei hlustað lengi í einu. Það þarf að taka mið af hverju þroskastigi og svo einstaklingsmun barna.

Hægt er að ræða myndirnar í tengslum við aðstæður sem barnið er oft í - eins og að hlusta á sögu í skólanum, hlusta á kennarann tala, hlusta á vini tala osfrv.