Sjálfstal er samtal sem einstaklingur á við sjálfan sig upphátt eða í hljóði í þeim tilgangi að hvetja sig áfram, hugga sig eða sýna sér væntumþykju eða jafnvel til að bæta ákveðna færni. Jákvætt og hjálplegt sjálfstal eykur trú á eigin getu og getur haft áhrif á líðan okkar og hegðun. Með æfingu getur jákvætt sjálfstal bætt líðan og styrkt sjálfsmynd okkar.

Það er gott að æfa setningarnar á hverjum degi í eina viku öðru hvoru. Það er einnig hægt að búa til sínar eigin setningar. Sjálfstalið má nota hvenær sem er, bæði þegar okkur líður vel og illa. Ef við æfum sjálfstalið þegar okkur líður vel þá verður auðveldara að nota það þegar okkur líður illa.

Foreldrar þurfa líka að skoða sitt hjálplega sjálfstal. Takið dæmi um hjálplegt sjálfstal sem þið notuðuð sem börn þegar þið hjálpið unglingnum ykkar að finna sitt.

Hugmyndir um hjálplegt sjálfstal:

  • Ég á það skilið að líða vel.
  • Hæfileikar mínir eru margir og ég er alltaf að uppgötva nýja.
  • Hugsanir eru bara hugsanir - stundum eru þær bara ekki réttar.
  • Ég reyni alltaf að gera mitt besta en skil að stundum gengur það og stundum ekki.
  • Ég er ekki fullkomin og mun aldrei verða það.
  • Það er í lagi að skipta um skoðun.
  • Tilfinningar mínar eru bara tilfinningar, ekkert til að hræðast.
  • Ég get treyst á sjálfa/n mig, ég hef allt sem þarf til að takast á við það sem upp kemur.
  • Ég neita að láta útlitið skilgreina hver ég er sem manneskja.
  • Ég hef upp á svo mikið að bjóða.
  • Ég ætla að finna fegurðina og sjarmann í ófullkomleika mínum.
  • Ég get leyft mér að slaka á og líða vel.
  • Ég get lært af þessu - hlutirnir verða auðveldari næst.
  • Ég get notað bjargráðin mín og komist í gegnum þetta.
  • Það er allt í lagi að líða stundum illa - það er mannlegt og eðlilegt.

Dettur þér eitthvað fleira í hug?

Stundum koma upp aðstæður sem eru erfiðar og við getum ekkert gert neitt í. Þá þurfum við oft að þola aðstæðurnar og komast í gegnum líðanina.

Einfalt dæmi: Misstum af strætó og verðum of sein á æfingu. Flóknara dæmi: Mamma og pabbi ákveða að skilja.

Þá getum við prófað að nota þessar setningar:

  • Svona þarf þetta víst að vera.
  • Ég stýri þessu ekki en geri bara mitt besta.
  • Það eina sem ég hef stjórn yfir er þetta andartak.
  • Ég get ekki breytt því sem þegar hefur gerst.
  • Mér getur liðið svona og samt gert það sem þarf að gera.

Hér fyrir neðan er æfing sem hjálpar unglingnum þínum að æfa þetta betur og finna hjálplegt sjálfstal sem passar fyrir hann.