Stundum getur verið gott að hafa einhverskonar atriðalista við höndina þegar við reynum að meta hvernig börnunum okkar er að ganga félagslega. Hér eru tveir slíkir listar. Annar er almennur en hinn á við félagslega hegðun í íþróttum og þá helst hópíþróttum.

Þú og barnið þitt getið fyllt listann út saman eða þú notað atriðin meira til að styðja þig við í samtali. Í kjölfarið er hægt að skoða hvort vandi er til staðar og þá hvar hann er mestur. Þá er hægt að gera áætlun um hvernig hægt er að vinna með þau atriði sem eru mest að koma upp - og þá einnig hvort fagaðila þurfi til þess.

Stundum gæti fagaðili þurft að meta hvað gæti legið að baki vanda með félagshæfni. Oft er hægt að ræða við skólasálfræðinga og námsráðgjafa til að vita hvað er í boði í viðkomandi sveitarfélagi og hvort skólinn sjálfur og þeir fagaðilar sem þjónusta hann bjóða upp á þessi úrræði.  Einnig er hægt að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga og svo eru til námskeið sem hjálpa til við vináttufærni eða félagsfærniþjálfun. Til dæmis má nefna Peers félagsfærniþjálfun, námskeið á vegum KVAN, Litlu KMS, Sálstofunnar og fleiri aðila.  En mikilvægt væri að athuga fyrst hvort þjónustuaðilar skólanna bjóði upp á úrræði sem eru þá niðurgreidd.  Eitthvað af ofangreindu er mögulega í boði í fjarkennslu fyrir landsbyggðina.

Mikilvægt er að foreldrar átti sig á því að svona þjálfun getur tekið tíma og þá þarf að hrósa barninu fyrir það sem vel er gert - hversu lítið sem það er.  Við viljum ekki bara tala um þau tilvik þegar barninu tókst ekki að ná markmiði.

Það skiptir miklu máli fyrir börn að þau nái að vera í samskiptum við jafnaldra sína á þeim forsendum sem hentar þeim best og með sem minnstum átökum.  Engin er eins og við eigum ekki að krefjast þess.  Allir hafa rétt á að líða vel í sínu félagslega umhverfi og oft mikið hægt að gera til að það gangi sem best.