Þessi æfing hjálpar okkur að finna ró og jafnvægi þegar við þurfum á því að halda. Til dæmis þegar við erum orðin föst í sjálfsgagnrýni.

Stattu upp. Haltu báðum höndum fyrir framan þig og krepptu hnefana mjög fast. Kreistu eins fast og þú getur og teldu hægt upp að 30. Hugsaðu um hvernig þér líður. Þetta er pínu sárt. Að minnsta kosti ekki þægilegt. Þú vilt hætta að kreista, er það ekki? Svona líður manni við sjálfsgagnrýni.

Opnaðu núna hnefann og láttu lófann snúa upp. Hverju finnurðu fyrir núna? Létti? Opinn og slakur lófi? Svona líður manni í núvitund. Núvitund snýst um að taka eftir því hvað er hér í augnablikinu og hleypa því inn.

Teygðu núna hendurnar út fyrir framan þig með opna lófana. Hvernig finnst þér það? Kannski eins og þú sért að teygja þig út eftir annarri manneskju? Alveg að fara að faðma einhvern? Eða um það bil að fá faðmlag?

Svona líður manni þegar við upplifum það að vilja vera hluti af einhverju sammannlegu. Teygja sig út og tengjast öðrum. Vera partur af og fá að vera með. Vera hluti af hópi. Standa ekki ein/n á eyðieyju.

Taktu núna hendurnar og leggðu þær yfir hjartastað. Leyfðu þeim að hvílast þar. Taktu eftir hvernig þú upplifir það. Taktu eftir smá þrýstingi eða hlýju á brjóstkassanum. Hvernig finnst þér þetta?

Finnurðu kannski hlýju? Öryggi? Vernd? Umhyggju? Kærleik? Þetta er velvild í eigin garð eða samkennd. Getur þér fundið tilfinninguna þegar þú gerir þessa æfingu. Tókst þér að finna samkennd þó það hefði bara verið í nokkrar sekúndur?

Manstu hvernig þér líður oft betur þegar einhver faðmar þig? Prófum það líka. Þá minnir þú þig á hversu vænt þér þykir um þig og aðra. Það geta allir notað svona faðmlag til að róa sig niður og til að líða betur. Þetta er einföld æfing en mjög öflug. Það eru til nokkrar útgáfur og hér lýsum við tveimur til viðbótar við þá sem lýst var að ofan:

  1. Taktu utan um þig. Lokaðu augunum og leyfðu hlýjunni að streyma frá þér til þín.
  2. Settu þumalfingurinn á hægri hendi inn í lófann á vinstri hendi. Strjúktu lófann og finndu hvað það er róandi. Sendu þér hlýju, skilning og sanngirni. Sendu þér samkennd. Þetta er hægt að gera í skólanum, á æfingu eða hvar sem er og enginn tekur eftir því.

Einnig er hægt að prenta út æfinguna "Róandi snerting" hér að neðan.