Ef mér þætti meira vænt um líkama minn…
Það er mikil áhersla lögð á það í samfélagi okkar að breyta, bæta og laga líkama okkar. Börn og unglingar finna mikið fyrir þessari umræðu og eru alltaf yngri og yngri þegar þau stökkva á þennan vagn sjálf. En ef maður upplifir sjaldan sátt við líkama sinn þá verður fljótt til innri órói sem margir eru ekki meðvitaðir um, sérstaklega börn og ungmenni. Þessi órói verður til þess að ýta skyndilausnum að fólki sem skapa oft fleiri vandamál en þau leysa. Þá er kominn vítahringur. Þegar okkur þykir vænt um líkamann og upplifum sátt eru meiri líkur á að við komum vel fram við hann - hvílum okkur oftar, drekkum meira vatn, hreyfum okkur og veljum betri næringu. Æfingar sem þessar, þar sem við æfum annað hugarfar, geta því haft mikil áhrif á styrkingu líkamsmyndar.
Í þessari æfingu ætlum við að gefa barninu tækifæri á að ímynda sér hvernig það er að vera sáttur við líkama sinn og þykja vænt um hann. Þessi æfing hentar bæði þeim sem eru komin í vanda með líkamsímynd sína og þeim sem eru það ekki.
Horfum fyrst á þetta myndband: Afhverju líkar mér ekki ...
Fyrri æfingin (A) snýst um samtal um myndbandið. Þetta er æfing sem mikilvægt er að foreldrar prófi að gera sjálf áður en samtalið hefst við barnið.
Seinni æfingin (B) snýst svo um áskorun. Í heila viku á barnið og foreldrið að ímynda sér að þau trúi skilyrðislaust staðhæfingum sem þau velja sér, eins og þau séu að leika leikrit. Svo er rætt hvernig gekk. Hvað gekk vel og hvað var erfitt?
A: Ef mér þætti vænna um líkama minn?
Ræðið myndbandið. Ef æfingin er nýtt i kennslustofu þá skiptir máli að þrýsta ekki á neinn að gefa upp svör sín, heldur frekar ýta undir samtalið. Þessi æfing hentar oft betur í minni hópum en stærri og því getur verið gott að skipta nemendum í hópa.
- Hvað ertu að gera í dag sem sýnir að þér þyki vænt um líkama þinn?
- Hvað er hægt að gera betur sem felur ekki í sér að reyna að breyta sjálfum líkamanum (t.d. meiri svefn, skemmtileg hreyfing, góð og fjölbreytt næring)?
- Ef þér þætti vænna um líkama þinn eins og hann er í dag myndi eitthvað breytast? T.d.:
- Myndir þú gera eitthvað oftar og öðruvísi?
- Hefði þú meira hugrekki til að gera það sem þig langar að gera núna eða í framtíðinni?
- Ef já, hvað? Myndir þú hreyfa þig öðruvísi? Vera í öðruvísi fötum? Hvíla þig meira?
B: Áskorun
ÁSKORUNIN: AÐ FARA Í GEGNUM EINA VIKU EINS OG MÉR ÞYKI VIRKILEGA VÆNT UM LÍKAMA MINN.
Ég þarf ekki að trúa því, bara láta eins og ég sé að leika leikrit ef ég þarf.
Veldu þær setningar sem þér finnst passa best og notaðu þær í viku. Þú mátt breyta og skipta út. Veldu alla vega þrjár en þær mega annars vera eins margar og þú vilt. Þú getur notað setningarnar hér að neðan sem dæmi eða búið til þínar eigin.
- Ég er stolt/ur af líkama mínum.
- Ég ætla að vera í þessum fötum af því ég fíla þau (mér finnst þau þægileg).
- Ég virði líkama minn.
- Líkami minn er sterkur og er alltaf að gera sitt besta - ég met hann mikils alveg eins og hann er.
- Ég er ánægð/ur með líkama minn NÚNA, ég ætla ekki að bíða þangað til á morgun.
- Ég veit og sé að ég er ekki fullkomin/n en mér þykir vænt um líkama minn samt!
- Ég neita að láta galla mína hafa áhrif á það hvað mér finnst um líkama minn. Að vera ófullkomin er fallegt og sjarmerandi.
- Líkami minn og ég sjálf/ur eigum það skilið að ég sýni honum væntumþykju. Ég set aðra hendina á hjartastað, legg hina á magann og sendi líkamanum skilyrðislausa væntumþykju og vernd. Þetta geri ég allavega tvisvar á dag.
- Ég myndi ekki vilja skipta líkama mínum út fyrir annan. Mitt er mitt. Ég elska hann eins og hann er.
- Í dag þykir mér vænt um líkama minn vegna þess að...
- Annað?