Að kunna að biðjast afsökunar er eitt af grunnstoðum allra náinna samskipta.  Sama hversu vel okkur gengur almennt í samskiptum þá er ekki hægt að fara í gegnum lífið án þess að þurfa að biðja einhvern afsökunar.

Börn sem geta auðveldlega áttað sig á því hvenær þau þurfa að biðja einhvern afsökunar tekst því frekar að ganga í gegnum lífið án þess að lenda oft í óþarfa átökum við aðra.  Þeim gengur til að mynda betur að þróa nánari, dýpri tengsl við aðra og stytta samskiptaörðugleika sem eðlilega koma upp annars slagið.

Hér að neðan eru nokkur atriði sem gott er að ræða:

Það er mikilvægt að ræða við barnið um hvenær maður biðst afsökunar og hvenær ekki.  Maður til dæmis biðst ekki afsökunar bara til að halda friðinn þegar maður í raun gerði ekkert rangt.  Gott er að taka ýmis dæmi af svona aðstæðum.

Mörg börn eiga erfitt með að biðjast afsökunar þar sem þau telja sig með því viðurkenna að þau séu slæmar manneskjur.  Þetta þarf að taka alvarlega og ræða vel og vandlega.  Við skulum frekar gera ráð fyrir að þetta sé staðan en ekki.  Mörg börn eiga erfitt með að tala um að þeim líði svona og þar af leiðandi átta foreldrar sig oft ekki á þessari hraðahindrun.

Besta ráðið til að kenna barni sínu þetta grunnatriði í samskiptum er að foreldrið geti sjálft beðið barn sitt afsökunar ef eitthvað kemur upp á.  Ef foreldri temur sér að biðja barnið afsökunar þegar það á við þá aukast  líkur á að barnið læri að gera það sjálft í samskiptum við t,d fjölskyldu og vini.  Dæmi um atriði sem foreldrar gætu þurft að biðjast afsökunar á eru að vera of sein, gleyma einhverju mikilvægu og vera of harðorð eða hvöss í samtali.

Það er hægt að kenna skrefin í afsökunarbeiðni með því að prenta út æfinguna sem hér fylgir og eiga gott samtal um það að biðjast afsökunar í réttum aðstæðum.  Mundu að það er alltaf gott að taka dæmi af sjálfum sér - bæði þegar þú sem foreldri varst barn en líka nær í tíma.  Æfingin er einföld - eingöngu þrjú skref - en virkar vel. Hægt er að prenta hana út hér neðst.

Hvernig hægt er að biðjast afsökunar:

Oftast dugar alveg að nota lið 1 - stundum er gott að nota 2 og 3 líka.

  1. Byrja á því að gangast við því sem þú sagðir eða gerðir.  “Fyrirgefðu að ég sagði/gerði……. “
  2. Það var rangt af því að….. (ég særði tilfinningar þínar).
  3. Í framtíðinni mun ég……. (passa mig betur, ekki segja/gera þetta aftur).

Skoðið þessi þrjú stig og ræðið mismunandi aðstæður þar sem hægt hefði verið að nota þessa leið.  Einnig gæti verið gott að ræða við barnið um af hverju eftirfarandi er ekki afsökunarbeiðni.  Takið dæmi og ræðið hvað annað væri hægt að segja:

Þetta er ekki afsökunarbeiðni:

  • Leiðinlegt að þér líður svona en ég gerði ekkert rangt.
  • Leiðinlegt að þú misskildir það sem ég sagði.
  • Þú misskildir mig, þér ætti ekki að líða svona.
  • Leiðinlegt að þér líður svona en manstu þegar þú...
  • Það var þér að kenna að ég….