„Eftir allt sem ég hef gert fyrir þig…“

„Það er búið að ala mig upp á samviskubiti í mörg, mörg ár“, sagði 16 ára stúlka við mig eitt sinn. Hún útskýrði það þannig að frá því að hún man eftir sér hafi allt sem hún gerði og fannst verið ómögulegt. Ástæðan var sú að það var oft á skjön við skoðanir og hugmyndir foreldranna. Foreldrar hennar mættu oft hugmyndum hennar og gjörðum með úrtölum, efasemdum og höfnun. Ef stúlkan stóð föst á sínu svöruðu foreldrarnir gjarnan í umvöndunartóni: „Er þetta þakklætið fyrir allt sem við höfum gert fyrir þig.“

Stúlkunni sárnaði þetta mjög vegna þess að hún var ekki að fara fram á eða gera eitthvað sem var hættulegt, ólöglegt eða meiðandi fyrir aðra. Þetta passaði bara ekki við hugmyndir foreldranna. Henni fannst þetta ruglandi sem gerði hana öryggislausa gagnvart eigin þörfum og skoðunum. Á meðan að hún sá jafnaldrana gera það sem þá langaði mætti hún mótstöðu frá foreldrum sínum. Til dæmis fannst foreldrunum dóttirin of þybbin, hreyfa sig of lítið og borða óhollt. Sjálf voru þau í góðu formi, grönn, hreyfðu sig mikið og borðuðu hollt. Stúlkan var algjör andstæða. Hafði engan áhuga á ræktinni en fannst gott að fara út að ganga þegar hana langaði til þess. Eins tók hún matarræðið ekki alvarlega. Borðaði það sem henni fannst gott í það og það skiptið. Hún var meira fyrir notalegheit, vildi njóta en ekki þjóta.

Stúlkan vildi hins vegar ekki bregðast foreldrum sínum, en hún vildi heldur ekki bregðast sjálfri sér og var því í stöðugri togstreitu milli þessara tveggja sjónarmiða. Þetta olli henni miklu hugarangri og hún fór að finna fyrir kvíða. Þetta fór að hafa áhrif á flest allt sem hún valdi og gerði, sérstaklega gagnvart útliti og klæðaburði. Henni fannst hún vera í lagi, en fékk allt önnur skilaboð frá foreldrum sínum. Hún var stöðugt að reyna að sætta þessar andstæðu skoðanir, með þeim afleiðingum að öryggisleysið og kvíðinn jukust því það er ekki auðvelt að þjóna tveimur herrum.

Heilræði úr bókinni Hollráð Hugos – Hlustum á börnin okkar:

Foreldar gera óhemju margt fyrir börnin sín. Segja má að allt frá fæðingu séu þeir vakandi og sofandi yfir velferð barnanna og tilbúnir að gera allt sitt besta fyrir þau. Foreldrar velja að kaupa handa þeim vöggu, barnavagn og gott rúm, greiða fyrir tannréttingar, fara með börnin í ferðalög innanlands sem utan, kaupa á þau föt og bjóða þeim í bíó. Þeir hvetja börnin sín til að sækja skemmtanir í skólanum, skutla þeim á æfingar og aka þeim jafnvel í skólann flesta daga. Foreldrar gera í rauninni óendanlega margt fyrir börnin sín.

Yfirleitt gera foreldrarnir þetta allt að eigin frumkvæði vegna þess að þá langar að gleðja börnin sín og hugsa vel um þau. Þeir gefa þeim til dæmis uppáhaldsmatinn þeirra, ferðast með þau til útlanda, safna fyrir ferðinni eða taka hana jafnvel á Visa-raðgreiðslum. Oft samþykkja foreldrar óskir barnanna umsvifalaust ef þeim finnst þær sanngjarnar. Stundum suða þau hins vegar lengi áður en foreldrarnir láta undan.

Það er mikilvægt að foreldrar taki ábyrgð á frumkvæði sínu að því sem þeir gera fyrir börnin sín, bæði þegar þeir hafa sagt já við því sem þau báðu um eða að lokum samþykkt það sem þau hafa suðað um. Foreldrar verða að gera sér grein fyrir að það er ákvörðun þeirra sjálfra að nota tíma, orku eða fjármuni til að gleðja barnið sitt eða verða við óskum þess, hver svo sem átti frumkvæðið.

Þess vegna er það ósanngjarnt þegar barnið þitt gegnir þér ekki með eitt eða annað að gefa í skyn að það skuldi þér eitthvað í stað þess sem þú samþykktir að gera fyrir það. Það er ósanngjarnt að beita því gegn barninu – þegar það hafnar ef til vill einhverju sem þú biður það um – að þú hafir nú veitt því sitt af hverju og sinnt því af örlæti og umhyggju og láta sem svo að það sé í skuld við þig.

Setningar á borð við: „Er þetta þá þakklætið fyrir allt það sem ég hef gert fyrir þig?“ eiga ekki heima í fjölskyldum. Þar á ekki við að halda lista yfir debet/kredit. Börn skulda ekki foreldrum sínum eitt eða fleiri „já“ fyrir öll þau „já“ sem þau hafa fengið frá þeim. Foreldrarnir ákváðu sjálfir hverju sinni að segja „já“ og verða að taka ábyrð á því.

Henni fannst hún vera í lagi, en fékk allt önnur skilaboð frá foreldrum sínum. Hún var stöðugt að reyna að sætta þessar andstæðu skoðanir, með þeim afleiðingum að öryggisleysið og kvíðinn jukust.
Setningar á borð við: „Er þetta þá þakklætið fyrir allt það sem ég hef gert fyrir þig?“ eiga ekki heima í fjölskyldum. Þar á ekki við að halda lista yfir debet/kredit.