„Best að haldast í hendur og halda hópinn”

Hugleiðing um það sem skiptir máli

Allt sem ég raunverulega þurfti að vita lærði ég á leikskólanum. Í rauninni flest sem ég hef þurft að vita um hvernig á að lifa, hvað á að gera og hvernig á að vera, þetta lærði ég í leikskólanum. Viskuna er ekki endilega að finna efst í menntapýramídanum heldur alveg eins líklega í sandkassanum í leikskólanum.

Þetta er það sem ég lærði; Deildu öllu. Vertu sanngjarn. Ekki berja fólk. Settu hluti aftur þar sem þú fannst þá. Taktu til eftir sjálfan þig. Ekki taka hluti sem þú átt ekki. Biddu afsökunar þegar þú meiðir einhvern. Þvoðu þér um hendurnar áður en þú borðar. Sturtaðu niður. Heitar kökur og mjólk eru góð fyrir þig. Lifðu lífinu í jafnvægi. Lærðu allt mögulegt og hugsaðu margt og mikið. Teiknaðu, málaðu, syngdu og dansaðu og leiktu þér og starfaðu eitthvað alla daga. Fáðu þér líka blund eftir hádegi. Þegar þú ferð út í heiminn varaðu þig á umferðinni, haltu í hendina á einhverjum og haldið hópinn. Vertu vakandi fyrir furðuverkunum. Mundu eftir litla fræinu í plastmálinu. Rótin fer niður en plantan upp og enginn veit í raun og veru hvernig eða af hverju en svona erum við öll. Gullfiskar, hamstrar, hvítu mýsnar og jafnvel litla fræið í plastmálinu – þau deyja öll. Einnig við.

Ég lærði að við erum öll mismunandi og það er allt í fína. Sumir kunna þetta og aðrir hitt. Sumir eru góðir að lita og aðrir í því að kubba.

Mundu eftir myndasögunum og fyrsta orðinu sem þú lærðir: SJÁÐU! Og forvitnin var vakin.

Allt sem þú þarft að vita er einhvers staðar í þessu. Gullna reglan og kærleikurinn og mikilvægi góðmennsku og vináttu og þess að virða það að við erum allskonar.

Hugsaðu þér hversu miklu betri heimurinn væri ef við öll, út um allan heim, fengjum kökur og kalda mjólk klukkan þrjú á hverjum degi eftir að hafa hvílst á kodda með teppi ofan á okkur. Eða ef við hefðum öll þá grundvallarreglu að þrífa eftir okkur og setja hluti alltaf aftur þar sem við fundum þá.

Og það er ennþá rétt, sama hveru gamall maður er, að þegar þú ferð út í hinn stóra heim er best að haldast í hendur og halda hópinn.

Hugsaðu þér hversu miklu betri heimurinn væri ef við öll, út um allan heim, fengjum kökur og kalda mjólk klukkan þrjú á hverjum degi eftir að hafa hvílst á kodda með teppi ofan á okkur.