Að þola það sem er óþægilegt

Ýmislegt gengur á í lífinu, gott og slæmt. Sorgir og gleði, óvæntir atburðir og alls kyns tilviljanir. Að kenna börnum að takast á við erfiðleika er eitt mikilvægasta uppeldishlutverkið. Ef þau venjast því að aðrir grípi alltaf inní er vandi á höndum. Það sama gerist ef þau læra að hunsa vandann, forðast hann eða láta eins og hann sé ekki til staðar.

Bjargráð (e. coping skills) er það orð sem við notum til lýsa þeim aðferðum sem við nýtum þegar upp koma erfiðleikar og slæm líðan. Ef við lýsum þeim á einfaldan hátt þá eru þessir þrír flokkar oft notaðir:

  1. Láta eins og vandinn sé ekki til staðar, dreifa huganum á neikvæðan hátt, hunsa erfiðleikana og aðstæðurnar sem fylgja þeim.
  2. Týnast í tilfinningunum sem koma upp og jafnvel hræðast þær. Sjá ekki út fyrir þær og lamast. Gera ekki neitt í vandanum.
  3. Taka eftir tilfinningunum en lamast ekki inn í þær. Finna fyrir tilfinningunum sem koma upp, tala um þær, nefna þær á nafn og skilja þær. Orða svo vandann, sjá heildarmyndina og finna lausn sem virkar. Stundum felst leitin að lausninni í að biðja um aðstoð eða ráð.

Dæmi:  Bjössi átti erfitt með stærðfræði og hafði ekki sinnt heimavinnunni vel. Það var að koma að prófi og hann vissi að hann þurfti að klára kaflana og undirbúa sig. Honum fannst svo erfitt að komast í það því að innst inni vissi hann að hann myndi þurfa að biðja um hjálp. Það fannst honum mjög erfitt. Dagarnir liðu og prófið nálgaðist. Bjössi ýtti undirbúningnum alltaf frá sér, neitaði að ræða þetta þegar foreldrar hans spurðu, fór til vina, spilaði tölvuleik, horfði á sjónvarpið og var alltaf aðeins lengur á æfingu en hann þurfti.

Dæmi:  Önnu fannst ekkert sérstaklega auðvelt að eignast vini en átti eina bestu vinkonu, hana Elínu. Einn daginn sagði Elín henni fréttir, hún var að fara að flytja í annað hverfi. Önnu brá gífurlega og brast í grát. Næstu dagar á eftir voru erfiðir. Hún grét mikið á kvöldin, var skapstygg heima fyrir og fannst allt ömurlegt. Hún var farin að forðast Elínu og foreldrar hennar vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Eitt lykilatriði í því að geta nýtt sér beinar bjargráðsaðferðir er að þola óþægindin sem koma fram þegar eitthvað erfitt gerist og ná svo að bregðast við á árangursríkan hátt. Það er eitthvað sem við æfum í lífinu. Enginn fæðist með þessa eiginleika. Sterk sjálfsmynd myndast þegar við trúum á okkur sjálf. Þegar við trúum því að við getum fundið lausnir við því sem upp kann að koma á lífsleiðinni. Stundum vitum við sjálf hvað við eigum að gera, en þurfum þó samt að ræða málið aðeins, fara yfir hugsanir og tilfinningar, segja einhverjum frá og sjá vandann frá annarri hlið o.s.frv. Stundum biðjum við aðra um aðstoð eða ráð.

Þetta læra börn að gera sjálf með auknum þroska og innsæi en einnig þarf að kenna þeim þetta. Að kenna lausnamiðaða hugsun sem leyfir tilfinningatjániningu er mikilvægt fyrir bæði kyn þó oft þurfi að huga sérstaklega að drengjum þegar tilfinningatjáning er annars vegar.

Dæmi:  Önnu tókst að lokum að ræða málið við foreldra sína. Hún gat með þeirra aðstoð nefnt tilfinningarnar sem komu upp samfara þessu öllu saman og það sem meira var hún gat sett á blað þær hugsanir sem voru fyrirferðamestar. Það kom upp úr dúrnum að hún var farin að hugsa hugsanir eins og: „ég er bara ömurleg, hún er að flytja því ég var ekki nægilega góð vinkona”, „það fara allir frá mér því ég er svo leiðinleg” o.s.frv. Þau gátu rætt þetta og Anna sá að þessar hugsanir voru ekki réttar. Þeim tókst líka að ræða lausn á vandanum. Hverfið sem Elín var að flytja í var ekkert svo langt í burtu og það gekk einn strætó alla leið. Þær gætu haldið áfram að hittast þó það yrði ekki jafn oft. Einnig myndu þær halda áfram að æfa dans saman og hittast þar. Það fylgdi því mikill léttir að átta sig á því að engin rök voru fyrir þessum hugsunum sem fóru af stað.

Stundum gerist það hins vegar að ekki er hægt að gera neitt í stöðunni og þá þarf að æfa sátt og æðruleysi. Þannig gæti Elín þurft að horfa á málið. Hún getur ekki stýrt því hvar foreldrar hennar ákveða að búa.

Þá getur verið hjálplegt að skoða sjálfstalið sitt og hugsa jafnvel um aðstæðurnar á þessa leið:

  • Svona þarf þetta víst að vera.
  • Ég stýri þessu ekki en geri bara mitt besta.
  • Það eina sem ég hef stjórn yfir er þetta andartak.
  • Ég get ekki breytt því sem þegar hefur gerst.
  • Mér getur liðið svona og samt gert það sem þarf að gera.
  • Þetta kallast að finna sátt og stundum er talað um þetta sem æðruleysi. Við kennum börnum að átta sig á því hvenær þau geta fundið lausnir og gert eitthvað í málunum og hvenær þau þurfa frekar að finna sátt við að geta það ekki.
Sterk sjálfsmynd myndast þegar við trúum á okkur sjálf. Þegar við trúum því að við getum fundið lausnir við því sem upp kann að koma á lífsleiðinni.