Á ég að eiga vigt heima?

Almennt séð er óþarfi að eiga vigt heima. Ef hún er til á heimilinu þarf að passa hvernig hún er notuð og hvernig foreldrar ræða um hana dagsdaglega. Það er mikilvægt að kenna börnum og unglingum að meta sig ekki út frá þyngd. Endurteknar vigtanir sem engin sérstök ástæða er fyrir geta haft neikvæð áhrif á þróun sjálfsmyndar.

Rannsóknir sýna að börn og unglingar sem vigta sig sjaldan eða aldrei eiga í heilbrigðara sambandi við líkama sinn en þau sem vigta sig oft. Ef upp kemur vandi með óheilbrigt samband við mat/líkama þá er öflugt ráð að taka burt vigtina. Það hjálpar við að brjóta upp þann vítahring. Við sjáum einnig að unglingar sem fara í megrun mynda fljótt óheilbrigt samband við vigtina sem stundum verður að þráhyggju með tímanum, með talsverðum afleiðingum fyrir lífsgæði seinna meir.

Allar átraskanir hefjast með einhversskonar megrun og þar leikur vigtin stórt og mikið hlutverk. Stór bandarísk rannsókn sýndi að stúlkur sem vigtuðu sig oft voru í meiri hættu á að þróa með sér hegðun eins og að sleppa máltíðum, nota megrunarpillur, reykja, stunda átköst og kasta upp mat. Þær voru auk þess í meiri hættu á að festast í vítahring sem oft er kallaður jó-jó megrun og getur auðveldlega varað út ævina. Rannsóknir sýna að þetta er mynstur sem getur fest sig í sessi langt fram á fullorðinsár. Því er mikilvægt að vera vakandi fyrir notkun á vigtinni og tilgangi hennar.

Þegar vigtin tekur stjórn á líðaninni þá þarf að taka ákvörðun um að henda henni út. Þeir sem það gera finna fyrir miklum létti og í kjölfarið verður mun auðveldara að leggja áherslu á verndandi þætti sjálfsmyndarinnar.

Heilbrigður einstaklingur sem lifir í góðum tengslum við líkama sinn og veit hvað hann þarf og hvenær, þarf ekki að vigta sig reglulega. Það er helst að vigtanir skipti máli ef ákveða þarf lyfjaskammta fyrir börn eða vegna annarra læknisfræðilegra þátta. Þeir einstaklingar sem af einhverjum ástæðum hafa misst þetta heilbrigða samband við líkama sinn ná einnig frekar að mynda það á nýjan leik ef vigtin er ekki hluti af því ferðalagi. Þá eru einnig meiri líkur á að það heilbrigða samband viðhaldist til lengri tíma ef vigtin leikur ekki aðalhlutverkið. Síendurteknar vigtanir geta á örskömmum tíma kveikt í þráhyggju og leitinni að ytri viðurkenningu.

Foreldrar leika hér stórt og mikið hlutverk. Mælt er með því að foreldrar ræði ekki við börn sín eigin vigtarhegðun og alls ekki áhyggjur sínar af eigin þyngd.

Samantekt: Ef þú hefur áhyggjur af því að barn þitt sé að þróa með sér átröskun eða óheilbrigt samband við mat/líkama sinn þá er einfalt en öflugt ráð að hreinlega henda vigtinni út af heimilinu. Einblína skal þá frekar á leiðir til að styrkja sjálfsmynd barnsins og kenna því aðra nálgun að mat og hreyfingu en ofurstjórn og eftirlit.

Rannsóknir sýna að börn og unglingar sem vigta sig sjaldan eða aldrei eiga í heilbrigðara sambandi við líkama sinn en þau sem vigta sig oft.
Þegar vigtin tekur stjórn á líðaninni þá þarf að taka ákvörðun um að henda henni út.  Þeir sem það gera finna fyrir miklum létti og í kjölfarið verður mun auðveldara að leggja áherslu á verndandi þætti sjálfsmyndarinnar.