Sjálfstraust stúlkna
Flest þekkjum við gott sjálfstraust/sjálfsmat þegar við sjáum það í fari annarra. En þegar við spyrjum sal af fólki hvað einkennir einhvern með gott sjálfstraust verður oft fátt um svör. Sennilega er það vegna þess að við getum ekki bent á eitt atriði sem merki þess.
Er Kim Kardashian með gott sjálfstraust? Hvernig metum við það? En Guðni Th? Þau eru varla líkar manneskjur, en virðast þó bæði vera með gott sjálfstraust í augum okkar flestra.
Það er algeng mýta að gott sjálfstraust eigi að byggja á því að vera ánægður með sig. Þess vegna förum við oft að hrósa hvort öðru til þess að bæta sjálfstraustið. Við setjum okkur líka oft markmið til þess að bæta okkur á einhverju sviði og vonumst eftir að sjálfstraustið aukist við það.
Börn og unglingar tengja gott sjálfstaust mjög oft við útlit, afrek og fjárhagsstöðu. Ungar stúlkur með lágt sjálfsmat leitast við að bæta útlitið, einkunnir eða eignast flottari hluti til þess að líða betur með sig. Þær bera sig gjarnan saman við það sem þær öfunda í fari hvor annarrar og hundsa aðra þætti í samanburðinum, sem jafnvel koma betur út fyrir þær.
Þegar við erum með lágt sjálfsmat verður það til þess að við segjum síður hvað okkur finnst, göngum ekki endilega í fötum sem okkur finnst flott, þorum síður að stinga uppá einhverju til að gera o.s.frv.
Okkur finnst að við verðum að verða betri útáfa af okkur til þess að fá meira sjálfstraust og þá ætlum við að gera það sem við viljum, segja hvað okkur finnst og klæða okkur eins og okkur langar.
En svo er til fullt af fólki sem virðist búa yfir góðu sjálfstrausti án þess að vera sérstaklega fallegt, ríkt, gáfað eða frammúrskarandi á einhvern annan hátt.
Hvernig stendur á því?
Svarið er einfalt. Gott sjálfstraust byggir á því að vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er. Gott sjálfstraust snýst um trú á eigin getu, en ekki endilega þá trú að maður sé bestur eða fullkominn, heldur þá trú að maður sé nógu góður.
Ef mín skoðun er jafn góð og hver önnur, eða ég á sama rétt og aðrir á að tjá mína skoðun, þá geri ég það. Ef minn fatasmekkur er nógu góður, eða ef ég er sátt við minn fatasmekk, þá get ég klætt mig eins og mér finnst flott. Þá kannski líka í lagi að öðrum finnist það ekki flott, mín skoðun er nóg.
Ef þú ert nógu góð eins og þú ert núna, þá er þér óhætt að skrá þig í þennan danstíma sem þig langaði í, þó að þú sért ekki eins góður dansari eða eins grönn og þig langar. Þú getur verið sátt við þig eins og þú ert núna jafnvel þó að þú sért ekki ánægð með allt í þínu fari.
Gott sjálfstraust snýst um að leyfa sér að lifa því lífi sem okkur langar, segja það sem okkur finnst, stinga uppá því sem okkur langar að gera, setja mörk, þróa okkar eigin fata- eða hárstíl og taka pláss í veröldinni. Það hefur ekkert með fullkomnun að gera.
Börn og unglingar tengja gott sjálfstaust mjög oft við útlit, afrek og fjárhagsstöðu.
Gott sjálfstraust byggir á því að vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er.