Seigla

Seigla (e. resilience) er hugtak sem er notað yfir innri styrkleika eða þrautseigju sem finnst hjá þeim börnum og fullorðnum sem tekst að láta ekki erfiðleika í lífinu buga sig. Til þess að byggja upp seiglu hjá börnum er mikilvægt að grípa ekki alltaf fram fyrir hendurnar á þeim þegar erfiðleikar steðja að. Við viljum undirbúa börnin okkar fyrir áskoranir lífsins.

Seigla hjá börnum þróast með uppvexti og reynslu. Börn læra mest af því sem fyrir þeim er haft, ekki það sem sagt er við þau. Farðu yfir listann hér að neðan og fáðu aðstoð ef þú átt sjálf/ur í miklum erfiðleikum með mörg atriði. Mundu að við, líkt og þau þurfum ekki alltaf að vera 100%.

Hér eru nokkrar uppástungur:

Að prófa nýja hluti:

 • Skráðu barnið á sumarnámskeið við eitthvað nýtt sem það hefur aldrei prófað áður.
 • Láttu barnið tala sjálft við afgreiðslufólk, t.d. í bakaríi, ísbúð, á veitingastöðum eða í sundi.
 • Kenndu barninu þínu að nota strætó og láttu það taka strætó, að minnsta kosti af og til.
 • Ekki vera of snögg/ur að grípa inní þó að barnið verði stressað eða kvíðið, prófaðu að sýna því skilning, deila eigin reynslu í svipuðum aðstæðum og hvettu barnið til að prófa, a.m.k. einu sinni.
 • Að taka vonbrigðum eða erfiðleikum:
  • Ekki leyfa barninu þínu að vinna sjálfkrafa í spilum.
 • Settu mörk og reyndu að standa við þau.
 • Kenndu barninu þínu að sjá tækifæri í breyttum aðstæðum:
  • Ef barnið er ekki valið í besta liðið í fótbolta, þá gæti það verið tækifæri til að spila lykilhlutverk í B liðinu eða spila með besta vininum.
 • Kenndu barninu þínu að tjá reiði með orðum og vertu fyrirmynd að því að leysa úr ágreiningi á þroskaðan máta.
 • Kenndu barninu þínu uppbyggilegar leiðir til þess að tjá tilfinningar eða fá útrás fyrir tilfinningar sínar.
 • Íhugaðu að nota húmor í erfiðum augnablikum.

Að leysa úr áskorunum:

 • Haltu aftur af þér þegar barnið þitt er í vandræðum með eitthvað, bíddu með að stinga uppá lausnum, prófaðu frekar að spyrja: hvað dettur þér í hug?
 • Ef barnið þitt hefur notað strætó, stingdu uppá að það taki strætó á nýjan stað og finni leiðina sjálft í appinu (fyrir eldri börn um það bil 12-13 ára og uppúr)
 • Kenndu barninu þínu að mistök séu hluti af því að læra á lífið. Mistök séu eðlileg og nauðsynleg. Deildu eigin reynslusögum af þínum mistökum.

Samkennd:

 • Sýndu barninu þínu skilning þegar það hefur gert eitthvað rangt eða þegar því liður illa. Kenndu því að sýna sjálfu sér skilning og vera sinn eigin besti vinur.
 • Kenndu barninu þínu að vera 80% og minntu það á mikilvægi þess að geta forgangsraðað þegar mikið er að gera.
 • Vertu fyrirmynd í að sýna sjálfri/um þér skilning þegar mikið liggur við.
 • Sýndu barninu að það hafi rétt á því að fá afsökunarbeiðni ef þú hefur farið yfir strikið í rifrildi og leyfðu því að hafa skoðun á því sem við á. Þannig lærir barnið að það skipti máli.

Húmor:

 • Vertu fyrirmynd að því að vera ófullkomin/n.
 • Kenndu barninu þínu að hlæja að sjálfu sér þegar eitthvað vandræðalegt gerist.

Að taka afleiðingum:

 • Leyfðu barninu þínu að taka afleiðingum eins og að sofa yfir sig, mæta of seint, gleyma að skila verkefni í skólann eða mæta illa undirbúið í próf. Ræddu atvikið við barnið eftir á, deildu eigin reynslu með barninu (t.d. í fyrsta sinn þegar þú svafst yfir þig á vinnustað). Það er mikilvægt að læra að upplifa streitu og afleiðingar þess að hugsa ekki fram í tímann, þannig lærum við að bera virðingu fyrir verkefnum en um leið að við erum mannleg og getum gert mistök og komist yfir þau.
 • Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú grípur inní ef barnið þitt fær skammir frá kennara eða þjálfara. Svo lengi sem ekki er um að ræða einelti eða alvarlegar afleiðingar, þá styrkir það börn að lenda í óþægilegum uppákomum eða samskiptum, þau eru hluti af lífinu. Ræddu frekar uppákomuna við barnið, skoðið saman hversu sanngjörn/ósanngjörn þessi uppákoma var. Ræðið um ólíkar týpur af fólki og hvernig hægt sé að velja sér hvenær sé ástæða til að kvarta og hvenær sé betra að halda sínu striki. Seinna meir gagnast það börnunum okkar ef þau lenda í erfiðleikum með kennara, á vinnustað, eða í námi. Auðvitað fer það eftir eðli atviksins hvort við bregðumst við eða ekki, en stundum lærir barnið meira á því að takast á við svona atvik sjálft, frekar en að láta foreldri stíga inn í aðstæðurnar.
 • Ef barnið þitt hefur gert eitthvað smávægilegt af sér, t.d. stolið einhverju eða skemmt. Íhugaðu að láta barnið standa fyrir máli sínu og taka ábyrgð. Því fyrr sem barnið lærir af afleiðingum, því betra. Þú getur svo hrósað barninu eftir á fyrir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það er dýrmætt að læra að biðjast afsökunar og bera ábyrgð á gjörðum sínum, því fyrr því betra.

Heilbrigðar venjur:

 • Láttu barnið þitt í einhverja skipulagða tómstund. Íþróttir, skák, kór, tónlistarnám, skólahljómsveit, skátarnir o.s.frv. Skipulagðar tómstundir krefast ábyrgðar, kenna börnum nýja færni, gefa þeim tækifæri til að eignast vini utan skólans o.m.fl.
 • Kenndu barninu þínu að hugsa um hreinlæti, ganga vel um heima hjá sér, sinna líkamsrækt og mataræði.
 • Hafðu reglu á háttatíma barnsins og kenndu því að fara upp í rúm án síma eða tölvu.
Börn læra mest af því sem fyrir þeim er haft, ekki það sem sagt er við þau.