Hvað ef barnið mitt er feitt?
Undanfarin ár hefur umræðan um offitu barna orðið háværari. Hún einkennist oftar en ekki af því að heilsufars- og félagsleg staða barnsins stefni í óefni ef ekki verði gripið inn í og það látið grennast eða þyngdaraukning stöðvuð. Þyngd barnsins er höfð að leiðarljósi í allri slíkri umræðu. Meðalhófs hefur ekki gætt í þessari umfjöllun og er afleiðingin sú að margar forvarnaraðgerðir reynast skaðlegri en ella og auka líkur á þróun átröskunar, jafnvel þær sem flestum þykir vera „heilbrigð skynsemi” [1]
. Það er því afar mikilvægt að foreldrar, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk skóla stígi varlega til jarðar í allri umræðu um holdafar barna.
En hvað geri ég þá ef barnið mitt er feitt? Síðustu ár hafa áherslur á heilsufarsbætingu barna færst frá holdafari yfir á heilsuvenjur og félagslegt umhverfi þeirra [2]
. Hér má einnig staldra við og íhuga hvort að barnið sé í raun óheilbrigt þó það sé feitt, en það þarf ekki endilega að vera. Hér eru nokkur ráð fyrir foreldra og aðra uppalendur feitra barna:
1. Ekki panikka ef barnið þitt segist vera feitt.
Margir, ef ekki flestir foreldrar hafa lent í því að barnið þeirra kemur miður sín heim úr skólanum og segist vera feitt. Mögulega hefur það orðið fyrir stríðni annarra eða fengið þessi skilaboð úr fleiri áttum. Þetta er erfitt fyrir foreldrahjartað og við eigum það til að bregðast við í uppnámi og sverja við barnið að það sé sko alls ekki feitt! Þegar við bregðumst svona við erum við þó mögulega að gera barninu meiri grikk en ella því að við erum þá ómeðvitað að gefa því skilaboð um að feitt sé ljótt og óæskilegt. Það er því mikilvægt að sýna stillingu, setjast niður með barninu og gefa sér tíma til að ræða þetta við það. Af hverju segist barnið vera feitt? Hvaðan fékk það þau skilaboð og af hverju leggur það neikvæða merkingu í þau? Niðurlagið í samræðunum á ávallt að vera það að það sé ekkert að því að vera feitur. Sjá ráðleggingu nr. 3.
2. Efldu líkamsvirðingu með barninu þínu.
Það þýðir að þú leggur áherslu á að barnið beri virðingu fyrir eigin líkama, sem og öðrum, óháð stærð, lögun, getu, heilbrigði eða útliti þeirra. Allir líkamar eiga skilið jafn mikla virðingu. Kenndu því líka að virða hungur- og seddumerki sín án utanaðkomandi afskipta s.s. að biðja það um að klára af disknum sínum eða að senda það í rúmið matarlaust í refsingarskyni. Góð og heilnæm fæða er undirstaða þroska og vellíðunar rétt eins og svefn og hreyfing. Besta veganesti sem við getum gefið börnunum okkar er að læra að treysta líkama sínum og hversu mikið þau þurfa hverju sinni. Það þýðir auðvitað ekki að þú eigir ekki að hafa neitt um mataræði barnsins þíns að segja eða gefa því ís á hverju kvöldi ef það bara biður um það. Mikilvægt er að finna gott jafnvægi, hafa fjölbreytta fæðu á boðstólum og hafa utanaðkomandi reglur sem fæstar.
3. Kenndu barninu að líkamar eru og eigi að vera fjölbreyttir.
Samfélagið gefur okkur ákveðin skilaboð um að hvítur, grannur og ófatlaður líkami sé hinn „eðlilegi” líkami. Það gefur ósjálfrátt til kynna að aðrir líkamar eigi minni virðingu skilið. Það er þó fjarri sanni. Fólk er rauðhært, brúnhært og ljóshært. Líkamar eru allskonar og því ber að fagna. Þeir eru feitir, mjóir og allt þar á milli. Þeir eru hávaxnir, lágvaxnir. Þeir eru brúnir, hvítir og allskonar á litinn. Þeir geta líka gert allskonar hluti, sumir geta hlaupið rosalega hratt meðan aðrir geta það ekki. Sumir geta farið í handahlaup en aðrir ekki. Það er allt í lagi. Við eigum ekki né getum öll verið eins. Mikið væri heimurinn leiðinlegur ef það væri nú þannig!
4. Verið meðvituð um það sem barnið horfir á og les.
Þær birtingarmyndir sem við og börnin sjáum í kringum okkur s.s. í sjónvarpsefni, bókum og á samfélagsmiðlum sýna almennt ekki litróf og fjölbreytileika mannslíkamans og ef slíkur fjölbreytileiki er sýndur er hætt við að „óeðlilegu” líkamarnir séu sýndir í neikvæðu ljósi. Feitir karakterar í barnaefni eru jafnvel sýndir þannig að öðrum líki illa við þá á meðan grannir karakterar eru birtir sem blíðir, góðir og líklegri til árangurs [3]
. Fylgstu með því efni sem barnið þitt neytir úr fjölmiðlum og ræddu við barnið ef að skilaboðin eru ekki líkamsvirðingarvæn.
5. Ekki binda siðferði við ákveðnar fæðutegundir.
Allt tal sem flokkar mat sem „slæman” eða „góðan” getur ýtt undir ótta við ákveðinn mat, megrunarhegðun og átraskanir. Slík flokkun tengir mat við skömm og það er eldfim blanda.
6. Aldrei setja barnið þitt í megrun!
Hafðu hugfast að “megrun” eru ekki bara skyndikúrar heldur líka allar „lífstílsbreytingar” þar sem markmiðið er að létta barnið. Slíkt setur fókusinn á þyngd barnsins sem eykur líkur á átröskunum og getur jaðarsett það enn frekar sem aftur getur leitt til m.a. óheilbrigðari matarvenja, minni hreyfingar, þunglyndis, kvíða, neikvæðrar sjálfsmyndar og líkamsmyndar sem og félagslegrar einangrunar (2).
7. Gríptu fljótt inní ef barnið þitt verður fyrir stríðni/einelti á grundvelli holdafars.
Einelti á grundvelli holdafars er algengasta tegund eineltis. Ef barnið þitt er feitt er það í aukinni hættu á að verða fyrir slíku ofbeldi og mikilvægt er að fylgjast vel með félagslífi þess. Fyrir frekari upplýsingar sjá: „Holdafar og einelti”.
8. Njótið matarins saman.
Matmálstímar eru mikilvægar samverustundir fyrir allar fjölskyldur. Þar hittumst við í lok dags, förum yfir það hvernig dagurinn okkar var og eigum uppbyggileg og ánægjuleg samskipti. Matur er ekki einungis eldsneyti á líkamann heldur gegnir hann mikilvægu menningarlegu og félagslegu hlutverki. Þessar samverustundir gefa foreldrum einnig tækifæri til að vera fyrirmyndir þegar kemur að matarvenjum barna sinna. Með samveru á matmálstíma geta foreldrar boðið börnunum fjölbreyttara fæði en ef einungis börnin og ungmennin fengju að ráða.
9. Hreyfið ykkur saman.
Útivist býður einnig upp á fjölmargar ánægjulegar samverustundir sem styrkja tengsl fjölskyldumeðlima, efla sjálfstraust og líkamsmynd og auka líkur á að barnið geri reglubundna hreyfingu að venju. Lykilatriði er að barnið upplifi hreyfinguna sem skemmtilega og ánægjulega en ekki sem kvöð. Forðist sérstaklega að tengja hreyfinguna við að breyta líkama ykkar eða barnsins.
10. Efldu líkamsvirðingu með sjálfum þér.
Þetta er lykillinn að því að efla líkamsvirðingu með barninu þínu og þar með sjálfs-og og líkamsmynd þess. Uppalendur eru stærstu fyrirmyndir barna og það getur ruglað barnið ef það fær misvísandi skilaboð. Ef mamma segir dóttur sinni að útlit skipti ekki máli og allir líkamar eigi jafn mikla virðingu skilið en talar síðan illa um útlit eigin líkama fyrir framan spegilinn eða við vinkonur sínar ná skilaboðin ekki til barnsins. Lítil augu og eyru verða vör við svo miklu meira en okkur grunar. Efling líkamsvirðingar hefur einnig líkamlega, andlega og félagslega heilsufarsbætingu í för með sér óháð aldri.
- [1] Puhl, R. & Suh, Y. Health Consequences of Weight Stigma: Implications for Obesity Prevention and Treatment. Current Obesity Report, (2015) 4: 182. https://doi.org/10.1007/s13679-015-0153-z
- [2] Golden NH, Schneider M, Wood C, AAP COMMITTEE ON NUTRITION. Preventing Obesity and Eating Disorders in Adolescents. Pediatrics. 2016;138(3):e20161649.
- [3] SYLVIA HERBOZO, STACEY TANTLEFF-DUNN, JESSICA GOKEE-LAROSE & J. KEVIN THOMPSON (2004) Beauty and Thinness Messages in Children's Media: A Content Analysis. Eating Disorders, 12:1, 21-34, DOI: 10.1080/10640260490267742.
Samfélagið gefur okkur ákveðin skilaboð um að hvítur, grannur og ófatlaður líkami sé hinn „eðlilegi” líkami. Það gefur ósjálfrátt til kynna að aðrir líkamar eigi minni virðingu skilið. Það er þó fjarri sanni.
Ef mamma segir dóttur sinni að útlit skipti ekki máli og allir líkamar eigi jafn mikla virðingu skilið en talar síðan illa um útlit eigin líkama fyrir framan spegilinn eða við vinkonur sínar ná skilaboðin ekki til barnsins.