Hlutverk afa og ömmu

Í mörgum tilvikum gegna afi og amma mikilvægu hlutverki í lífi barnabarna sinna; skutla og sækja í skóla og tómstundir, hlaupa í skarðið þegar barnabörnin eru veik heima og passa þegar foreldrarnir bregða sér frá. Í mörgum ungbarnafjölskyldum er vandséð hvernig daglega lífið gengi upp ef afa og/eða ömmu nyti ekki við. Við þetta bætast samverustundir í sumarleyfum, á stórhátíðum og við ýmis önnur tilefni.

Segja má að hlutverk afa og ömmu í daglegu lífi barnabarnanna sé samningsatriði. Það fer eftir vilja og getu afa og ömmu, óskum foreldranna og þörfum barnanna. Oftast einkennist þessi samvinna um börnin af gagnkvæmri ánægju og sátt. Þegar miður gengur er það ýmist vegna þess að afar og ömmur ætla sér um of, líta á það sem heilaga skyldu sína að verða við hverri bón foreldranna, eða þau ætla sér hlutverk í lífi barnabarnanna sem er ekki í takt við óskir og viðhorf foreldranna.

Lykillinn að góðri samvinnu er gagnkvæmur skilningur á hlutverki, þörfum og andrúmslofti þar sem hægt er að ræða málin og setja mörk. Hér eru nokkrar ábendingar til þín sem ert í afa- eða ömmuhlutverki:

Byrjaðu á að skoða stöðu þína:

Berðu virðingu fyrir eigin óskum og þörfum? Hversu stóru hlutverki vilt þú gegna í lífi barnabarnanna? Viltu skipuleggja líf þitt í meginatriðum út frá óskum barna þinna og tengdabarna? Eða ertu í þeirri stöðu að óskir þeirra eru íþyngjandi fyrir þig? Kannski vegna þess að þú segir alltaf já, sama hvernig stendur á hjá þér? Þá er hætt við að þau viti ekki betur en allt sé í besta lagi. Eða hefur þú reynt að setja mörk og fengið neikvæð viðbrögð? Þá er mikilvægt að setja mörk í vinsemd.

Foreldrarnir leggja línurnar í uppeldinu, þú ert til aðstoðar:

Berðu virðingu fyrir foreldrahlutverki barns þíns og tengdabarns? Lagar þú þig að áherslum þeirra varðandi svefntíma, mataræði, sjónvarps- og tölvunotkun og sælgætisáti? Eða lifir þú eftir þeirri „speki“ að afar og ömmur hafi rétt á að spilla barnabörnunum? („hjá afa og ömmu eru alltaf nammidagar“). Grípur þú fram fyrir hendur foreldranna í uppeldinu? Ertu með óumbeðnar/ óvelkomnar aðfinnslur um hvernig foreldrarnir gera hlutina?

Reynsluboltar í barnauppeldi vandi sig:

Ef þú hefur áhyggjur af umönnunarvenjum eða uppeldisaðferðum foreldranna, er mikilvægt að vanda vel hvernig því er komið á framfæri. Í fyrsta lagi er rétt að spyrja sig hvort það sem þér finnst að betur mætti fara sé mikilvægt eða kannski smekksatriði. Dæmi um hið síðarnefnda er t.d. hvar megi gefa börnum brjóst, hvort barnið sé nægilega vel klætt til útiveru eða hvaða föt fari barninu vel. Í öðru lagi er val á stað og stund til að ræða málið. Ekki koma með athugasemdir eða inngrip í hita leiksins, heldur veldu betra tækifæri þegar ró er komin á og gott næði til samtals. Hafðu í huga að óumbeðin „ráðgjöf“ er oftast óvelkomin. Eða eins og Húgó heitinn Þórisson sálfræðingur sagði: „Ef þú hefur áhyggjur af einhverjum og langar að gefa góð ráð, skaltu byrja á að sækja um ráðgjafastarfið.“ Foreldrarnir eru mun líklegri til að hlusta með opnum huga ef þeir eru búnir að ráða þig í ráðgjafastarfið. „Ég verð bara að segja að mér finnst sorglegt að horfa upp á hvað þið eruð harkaleg við hann Palla varðandi koppinn“ er líklegt til að kalla á reiði- og varnarviðbrögð. „Mig langar að tala um hvernig gengur með að venja Palla á koppinn… ertu til í að hlusta?“ er líklegra til að koma á opnu samtali.

Síðan er að vanda orðaval. Hlutlausar og málefnalegar lýsingar á atvikum og hugsanlegum neikvæðum afleiðingum eru mun vænlegri til árangurs en stóryrði og tilfinningahlaðnar fullyrðingar.

Þá er gott að hafa í huga að hlutverk þitt í lífi barnsins mun breytast, ýmist vegna breyttra þarfa fjölskyldunnar eða breyttra þarfa og óska barnsins sjálfs. Mikilvægt er að takast á við slíkar breytingar af raunsæi og skilningi. Maður saknar gömlu góðu daganna þegar blessað barnið kom hlaupandi til manns með útbreiddan faðminn. Samt er mikilvægt að sætta sig við að sá tími kemur þegar barninu finnst vandræðalegt að knúsa og kyssast.

Kærleikur og virðing:

Við elskum barnabörnin okkar skilyrðislaust og viljum þeim allt það besta. Afar og ömmur eru gjarnan óspör á hrós og hvatningu. Sem er hið besta mál, en það væri gagnlegt að við veltum fyrir okkur fyrir hvað hrósum við barnabörnunum okkar. Rannsóknir hafa sýnt að mjög stór hluti af því hrósi sem börn fá snýr að útliti. Sérstaklega á þetta við um stúlkur. Þá sýna rannsóknir að börn og unglingar (einkum stúlkur) eru upptekin af útliti sínu og hafa af því umtalsverðar áhyggjur. Af þessum sökum er hollt fyrir okkur öll að staldra við og spyrja okkur sjálf: fyrir hvað hrósum við barnabörnunum okkar? Hrósum við þeim kannski fyrst og fremst fyrir líkamlegt atgervi – sem þau hafa lítið sem ekkert með að gera? Eða hrósum við þeim fyrir jákvæða hegðun og eiginleika – sem getur eflt vitund þeirra um persónulega eiginleika sína og styrkt þau sem einstaklinga?

Segja má að hlutverk afa og ömmu í daglegu lífi barnabarnanna sé samningsatriði. Það fer eftir vilja og getu afa og ömmu, óskum foreldranna og þörfum barnanna.
Þá er gott að hafa í huga að hlutverk þitt í lífi barnsins mun breytast, ýmist vegna breyttra þarfa fjölskyldunnar eða breyttra þarfa og óska barnsins sjálfs. Mikilvægt er að takast á við slíkar breytingar af raunsæi og skilningi.