Hegðun og hugur – viðurkennandi uppeldi

Sjálfsmynd barna mótast og fæðist í samskiptum og samspili við umhverfi barnsins og þar hafa mest áhrif lykilpersónurnar í lífi barnsins – foreldrarnir. Hegðun barnsins endurspeglar líðan þess og tilfinningu barnsins fyrir sjálfu sér, getu sinni, stöðu og öryggi í tilverunni. Barn sem er með sterka sjálfsmynd endurspeglar hana með öryggi í framkomu, kjarki í að takast á við ný og krefjandi verkefni og hegðun þess er afslöppuð. Barnið mætir nýjum aðstæðum með jákvæðni og forvitni. Barn sem er að glíma við veika sjálfsmynd upplifir óöryggi, vanmetakennd og stutt er í óttann. Hegðunin endurspeglar það með til dæmis trúðslátum, ögrandi hegðun, feimni eða stjórnleysi. Nýjum kringumstæðum er mætt með neikvæðni og ótta.

Viðhorf fullorðinna til barna þurfa að vera viðurkennandi en ekki hafnandi. Munum að börn lesa í ósögð skilaboð og eru næm á þau, því þau þurfa á merkjum úr umhverfinu að halda til að finna út úr því til hvers er ætlast af þeim og til að lenda ekki í árekstrum við aðra. Verum með á hreinu hvaða lífsviðhorf við höfum og gildismat. Vörum okkur á eigin fordómum. Verum með okkar verðmætamat á hreinu, verum viss um að það sé það mat sem okkur finnst skipta mestu máli og við viljum skila til barnanna okkar.

Lífið leikur ekki alltaf við foreldra. Það er mörgu að sinna og stundum er of mikið álag. Við upplifum áföll, veikindi, kvíða, fjárhagsáhyggjur, kröfur í vinnu, stórfjölskyldu og svo framvegis. Þegar koma erfiðir tímar er erfiðara að vanda sig í foreldrahlutverkinu. Þá hættir okkur til að mæta barninu með hafnandi framkomu, óþolinmæði, skilningsleysi og látum barnið finna fyrir okkar eigin þreytu og úrræðaleysi. Þá er hætt við að barnið upplifi þröngsýni, pirring, ósanngjarnar og óraunhæfar kröfur um hvernig barnið “á að vera” og samanburð við önnur börn sem er barninu okkar ekki í hag.

Jafnvel gefum við okkur ekki tíma og finnst við ekki hafa orku til að setja okkur í spor barnsins. Veita því athygli og áhuga og sýna því stuðning. Þá getur það gerst á bestu bæjum að við missum stjórn á skapi okkar og líðan og látum þá stjórnleysið bitna á barninu sem á allt undir því að fá samþykki okkar og njóta öryggis í okkar skjóli. Öll erum við mannleg og ekkert foreldri sleppur í gegnum margra ára uppeldi án þess að misstíga sig. En mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ef við missum stjórn á okkur við barnið erum við að ráðast að manneskjunni og brjóta á henni og nauðsynlegt er að sjá villu síns vegar, leiðrétta mistökin, biðja barnið afsökunar og taka stjórn á eigin líðan.

Mikilvægt er að aðgreina hegðun barnsins og persónu barnsins. Viðurkennum alltaf persónuna með sínum upplifunum, tilfinningum, skoðunum og þörfum. En stundum höfnum við hegðun barnsins þegar hegðunin fer út fyrir þann ramma sem við setjum henni. Af hverju þurfum við að setja hegðun barns ramma? Má barnið bara ekki njóta þess að vera barn, segja og gera það sem andinn blæs því í brjóst hverju sinni? Jú að sjálfsögðu er mikilvægt að gefa barni rými til að njóta sín. Vera barn í leik og áhyggjuleysi. En ekkert barn fæðist með vitneskju um það samfélag sem bíður þess. Hvaða siðir og venjur viðgangast og hvers umhverfið væntir af okkur mannfólkinu. Svo við getum látið samfélagið ganga upp, höfum umferðarreglur sem hjálpa okkur að lifa og starfa saman. Það er hlutverk foreldra að kenna börnum, fræða þau um siði og venjur og reglur, leiðbeina þeim jafnóðum og vera jafnframt uppbyggilegar og skýrar fyrirmyndir. Við veitum börnum öryggi með skýrum ramma. Þá þarf barnið ekki að velta fyrir sér hvar línan liggur. Þarf ekki stöðugt að vera að leita að því hvað á við og hvað ekki og getur einbeitt sér áhyggjulaust að því að vera barn og njóta þess öryggis sem við veitum með því að sjá um rammann! En jafnframt þarf barnið á því að halda að upplifun þess, hugmyndir og tilfinningar séu viðurkennd, barninu veitt athygli og sýndur áhugi og stuðningur.

Við leiðbeinum og stöðvum jafnóðum óæskilega hegðun. Ef við gerum það ekki þarf barnið að reka sig á síðar annars staðar og upplifa að annað fólk stöðvar hegðunina án þess öryggis sem foreldrar veita með sínum tilfinningatengslum og væntumþykju. Og það fer illa með sjálfsmynd barnsins, veldur óöryggi og kvíða og getur skapað vítahring í hegðun barnsins. Þegar við setjum barni mörk er mikilvægt að minna sig á að við komum ekki í veg fyrir hegðun, við getum einungis mætt hegðuninni með skýrum skilaboðum. Við getum heldur ekki borið ábyrgð á hegðun barnanna okkar við getum einungis leiðbeint og verið sjálf með á hreinu hvaða ramma og hvaða gildi við viljum hafa í hávegum. Við þurfum sem foreldrar að vera dugleg að spyrja okkur sjálf hvernig okkur líður gagnvart hegðun barnsins, hvaða skoðanir við höfum á því hvað er innan ramma og hvað ekki og hvernig við viljum og treystum okkur til að bregðast við. Notum svo skýr skilaboð sem barnið skilur og getur tekið við (ekki hótanir eða stjórnleysi – reiði eða leiða – tár). Notum “Ég vil, mér finnst..” þá er okkar vilji ljós og barnið getur stuðst við hann og það hjálpar hverju barni að öðlast sjálfsaga að fá að njóta jákvæðs og viðurkennandi aga í uppvextinum. Gangi ykkur vel!

Gullnar reglur í uppeldi gætu verið þessar:

  • Mætum barni af öryggi
  • Notum skýr skilaboð í samræmi við þroska barns
  • Höfum úthald – við sinnum uppeldi einn dag í einu
  • Hótum ekki, aðvörum og framfylgjum svo skilaboðum með því að stöðva hegðun
  • Verum meðvituð um okkar eigin mörk
  • Tökum eitt skref í einu og gerum ekki óraunhæfar væntingar til okkar sjálfra
Munum að börn lesa í ósögð skilaboð og eru næm á þau, því þau þurfa á merkjum úr umhverfinu að halda til að finna út úr því til hvers er ætlast af þeim og til að lenda ekki í árekstrum við aðra.
Þegar við setjum barni mörk er mikilvægt að minna sig á að við komum ekki í veg fyrir hegðun, við getum einungis mætt hegðuninni með skýrum skilaboðum.