Áunninn athyglisbrestur

Þegar við tölum um athygli erum við oftast að vísa í eiginleikann til þess að einbeita okkur að tilteknum atburði, viðfangsefni eða áreiti. Öll höfum við eiginleikann til þess að einbeita okkur að einhverju og er það eins og með alla eiginleika þá erum við misgóð í því. Einnig getur verið dagamunur hjá okkur í athygli og það geta komið dagar/tímabil þar sem einbeitingarleysið hrjáir okkur.

Hægt er að líkja huganum við vöðva sem þreytist við notkun, hver einstaklingur hefur ákveðið þol sem hann getur nýtt sér til þess að leysa lífsins verkefni. Ef við reynum mikið á hugann þá kemur þreyta og hæfni okkar til þess að leysa flókin verkefni minnkar þangað til við erum úthvíld. Einbeiting er orkufrekt ferli sem getur þess vegna truflast vegna þátta sem taka orku frá okkur eins og svefnleysi, streitu og áfalla. Þá tölum við um einbeitingarleysi.

Við búum á tíma þar sem umhverfi okkar er fullt af áreitum og við getum aðeins unnið úr broti af þeim upplýsingum sem eru í kringum okkur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að farsímar og fartölvur geta verið afar streituvaldandi, tækin eru búin ljósum og hljóðum sem eru hönnuð til þess að draga athyglina að sér. Slík tæki keppast því við að ná athygli okkar. Mikil notkun slíkra tækja krefst því mikillar orku og getur leitt til einbeitingarleysis þar sem athyglin er stöðugt að fara á snjalltækið.

Hófleg og skynsöm notkun snjalltækja er því mikilvæg til þess að draga úr streitu tengdri notkun á þeim.

Snjallsímanotkun foreldra:

Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef foreldrar grípa oft í símann þá er einsýnt að börnin munu nýta tækifærið og gera það sjálf. Það er þó tvennt sem er slæmt við mikla snjallsímanotkun foreldra. Annars vegar er það minni upplifun á núinu. Þegar við erum stöðugt að setja athyglina á tæki þá missum við af því sem er að gerast í lífinu þá stundina. Streitan eykst og öll athygli verður tættari. Þá verður þráðurinn oft styttri sem getur bitnað á samskiptunum.

Hins vegar eru teikn á lofti um að mikil snjallsímanotkun foreldris í frítíma og inni á heimilinu ýti undir höfnunartilfinningu. Athyglin er þá augljóslega minni á barninu og samskiptum við það. Samskiptin ósjálfrátt minnka og barnið fær því minni þjálfun í þeim heima.

Það hjálpar mikið að vera með símabox heima. Þetta eru box úr pappa með loki sem fást hér og þar. Þessi box geta verið í forstofunni eða í öðru sameiginlegu rými. Það heyrist auðveldlega ef hringt er í símann en þegar síminn er komin úr hendi er auðveldara að vera ekki alltaf að taka hann upp. Einnig er gott að setja reglur um notkun. Eins og til dæmis að þegar farið er á veitingarstað og kaffihús sé ekki verið í símanum meðan beðið er eftir matnum o.s.frv.

Hófleg og skynsöm notkun snjalltækja er því mikilvæg til þess að draga úr streitu tengdum notkun á þeim.