Borða í núvitund

Matur er algengt bjargráð að nota þegar eitthvað bjátar á. Mannfólk hefur notað mat frá upphafi til að takast á við nánast allt sem tengist mannlegri tilveru. Við borðum saman til að dýpka félagsleg tengsl, við borðum þegar við syrgjum, þegar við verðlaunum okkur, þegar við erum döpur, þegar við þurfum að slaka á osfrv. Það mun því alltaf þurfa að vera rými fyrir þessa hegðun og ekki gott að fyllast samviskubiti í hvert sinn sem við gerum þetta.

Matur má þó ekki snúast upp í refsingu, skömm og sektarkennd. Þá verður til vítahringur sem oftast endar í óheilbrigðu sambandi við mat og líkamann. Börn og unglingar þurfa að læra hvað er eðlilegt í þessum efnum og hvenær þau eru farin að stóla um of á eitt bjargráð. Við viljum ekki setja öll eggin í eina körfu hvað það varðar – við viljum kenna fjölbreytni í bjargráðum. Til að geta leiðbeint börnum og unglingum hvað þetta varðar þá þurfa foreldrar sjálfir að hugsa aðeins um það hvernig þeir bregðast við streitu. Þarftu mögulega sjálf/ur að auka bjargráðafjölbreytni þína?

Þeir sem byrja ungir í megrun (hvaða nafni sem hún nefnist) og hafa jafnvel gert það reglulega í nokkurn tíma hafa margir misst samband við eigin líkama. Þá eigum við til dæmis við seddu- og svengdartilfinningu. Þegar það gerist þá vitum við oft ekki hvenær við þurfum að borða, hvað við þurfum hverju sinni að borða- og hversu mikið. Þess vegna hefur það verið árangursrík leið að læra að borða í núvitund - við eigum þá auðveldara með að svara ofangreindum spurningum.

Þegar við borðum í núvitund þá hægjum við á öllu ferlinu, tengjumst andardrættinum, tökum eftir bragðinu og finnum hvernig seddutilfinningin þróast.

Þessi myndbönd lýsa þessu vel:

Að borða í núvitund er ekki megrunartæki. Það er mikilvægt að muna það. Að borða í núvitund er nokkuð einföld en öflug leið til að ná aftur tengslum og mynda heilbrigðara samband við mat. Það er mikilvægt að muna að það er ekki alltaf hægt að borða í núvitund. Stundum borðum við yfir okkur og það er eðlilegt. Stundum gleymum við að borða og það er líka fullkomlega eðlilegt. Ef við borðum í núvitund svona oftast þá höldum við hins vegar oftar í því jafnvægi sem hentar okkur best.

Við erum nokkuð ólík þegar kemur að því hvaða matur fer vel í okkur og hversu mikið við þurfum að borða hverju sinni.  En ef við tökum eftir - beinum athyglinni að okkur sjálfum en ekki nýjasta kúrnum þá finnum við frekar okkar takt - þetta góða jafnvægi.

Börn og að borða í núvitund

En hvað hefur þetta að gera með börn? Börn fæðast inn í þennan heim sem snillingar í því að borða í núvitund. Þetta er hæfileiki sem þau fæðast með, að vita hvenær þau þurfa að borða og hversu mikið þau þurfa að borða. Mörg týna þessum hæfileika þegar þau fara að nota mat sem leið til að fást við t.d erfiðar tilfinningar, slæma lífsreynslu eða megrunaræðið fer að banka upp á. Oftast gerist það á unglingaaldri, stundum fyrr. Skilaboð um að matur sé eitthvað sem þarfnast ofurstjórnar koma fljótt inn í líf margra barna í dag. Samfélagsumræðan sér til þess. Þá er ekkert endilega talað um megrun heldur hreinsun, lífstílsbreytingu o.s.frv., en fyrir flesta er þyngdartap/megrun aðalstefið.

Prófaðu að æfa þessu atriði með barninu þínu:

  • Börn fæðast með hæfileikann til að vita hvað þau þurfa að borða mikið. Treystu þeim þegar þau segjast ekki þurfa að borða meira (innan skynsamlegra marka).
  • Ekki neyða barn til að klára allt af disknum eða múta þeim með eftirrétt til að þau borði allt.
  • Forðist það að nota mat sem verðlaun - alla vega ekki gera það að vana. Það að njóta matar þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast er ekki það sama og nota mat sem verðlaun fyrir að gera hluti sem þau eiga að gera.
  • Þó við notum stundum mat til að verðlauna okkur eða slaka á þá er mikilvægt að kenna barninu þínu fleiri bjargráð til að nota þegar á að fagna einhverju eða takast á við eitthvað erfitt. Leggðu snemma áherslu á þjálfun fjölbreyttra bjargráða.
  • Forðastu að merkja mat með merkimiðum eins og “bannaður matur”, “matur sem aldrei ætti að borða” o.s.frv. Kennið frekar jafnvægi og hjálpið barninu að skilja af hverju næring skiptir máli - hvað vitamín, steinefni, trefjar o.fl gera fyrir okkur.
  • Leyfið barninu að koma með í búðina, spá í hvað best er að kaupa, og taka þátt í að elda matinn.
  • Reynið að borða saman sem fjölskylda eins oft og hægt er og setjið snjalltækin í hlé.
  • Æfðu barnið í að átta sig á eigin seddu- og svengdarmerkjum. Til dæmis er hægt er að spyrja annars lagið: “hvað segir maginn núna - er hann saddur eða alveg að verða saddur”.

Skoðaðu þetta myndband með barninu, það er á ensku en er hjálplegt samt sem áður:

Seddu- og svengdarmælir:

Hér má nálgast seddu- og svengdarmæli á PDF sniði fyrir bæði kynin:

Að borða í núvitund er ekki megrunartæki heldur nokkuð einföld en öflug leið til að ná aftur tengslum við og mynda heilbrigðara samband við mat.
Skilaboð um að matur sé eitthvað sem þarfnast ofurstjórnar koma fljótt inn í líf margra barna í dag.