Áhrifavaldar og ósanngjarn samanburður
Samanburður er í eðli sínu neikvæður. Þegar við berum okkur saman við aðra hefur það oft neikvæð áhrif á sjálfsmyndina. Samfélagsmiðlar eru fegruð mynd af raunveruleikanum og mikilvægt að ræða það reglulega að samfélagsmiðlar birta sjaldan raunveruleikann. Á unglingsárunum, þessum helstu mótunarárum manneskjunnar er betra að minnka ósanngjarnan og óþarfan samanburð á útlit, færni, getu, lífsaðstæðum og öðru eins og hægt er.
Það er í raun mjög stutt síðan að þessar aðstæður komu upp – að hægt sé að taka upp símann sinn og skjótast beint inn í fegrað líf annarra. Athyglin fer fljótt í þann farveg að taka bara eftir þeim sem eru grennstir, mest aðlaðandi og að gera mest spennandi hlutina – hinir falla einhvern vegin út – jafnvel þó sá hópur sé stærri.
Oft teljum við samanburð vera jákvæðan, að hann hjálpi okkur að falla betur inn í hópinn og á þetta ekki síst við um ungt fólk. En síðan samanburður við aðra varð svona auðveldur og ósanngjarn virðist hann hafa nokkur áhrif á upplifaða sálfélagslega streitu.
Mikilvægt er að foreldrar hafi í huga og miðli áfram þeim staðreyndum að oft er búið að breyta myndum sem birtast á samfélagsmiðlum og jafnvel setja saman nokkrar manneskjur til að búa til eina gervimanneskju. Oft er búið að eyða miklum tíma í að taka myndina áður en henni er breytt. Þetta er nánast alltaf gert ef fyrirtæki eða frægt fólk á í hlut en það hefur aukist að venjulegt fólk og unglingar breyti myndum af sér eftir á. Margir setja myndbreytiforrit (photoshopping) í símana og oft án þess að foreldrar viti af því.
Sjálfur (selfies) skipta þarna nokkru máli og geta haft mikið að gera með mótun sjálfsmyndarinnar. Unglingar sem festast í því að taka oft sjálfur virðast vera kvíðnari og leitast eftir samþykki annarra – eiga erfiðara með að gefa sér sjálfum þetta samþykki um að þau séu í lagi eins og þau eru. Oft er um að ræða valda, ritskoðaða glansmynd sem langoftast á að senda einhver skilaboð til annarra. Viðbrögðin við sjálfunni eru svo það sem veitir viðurkenningu á að þú sért í lagi. Oftast er um að ræða löngun í samþykki á útliti, afrekum eða margskonar hegðun sem tengd er ákjósanlegum árangri.
En þó það sé mikilvægt að halda því til haga að við eyðum ekki öllum samfélagsmiðlum, þeir eru komnir til að vera - þá er alltaf mikilvægt að minnka tíðni samanburðarins. Við þurfum að gefa börnum og unglingum færri tækifæri til að detta í svona samanburð í sínu daglega, hversdagslega lífi. Það gerum við helst með því að virða aldurstakmörk samfélagsmiðla og með því að styrkja sjálfsmynd barna okkar.
Mikilvægt er að foreldrar hafi í huga og miðli áfram þeim staðreyndum að oft er búið að breyta myndum sem birtast á samfélagsmiðlum og jafnvel setja saman nokkrar manneskjur til að búa til eina gervimanneskju.