Að kenna börnum samkennd

Samkennd er sá eiginleiki að geta sýnt sér skilning þegar við höfum ekki staðið okkur nógu vel eða erum ekki nógu ánægð með okkur. Sektarkennd er sú tilfinning sem við finnum þegar við vitum að við gerðum eitthvað rangt og okkur finnst það sjálfum ekki í lagi. Skömm er sú tilfinning sem við finnum þegar við óttumst að vera dæmd af öðrum fyrir eitthvað sem við gerðum eða erum.

Ef börnin okkar gera eitthvað rangt eins og að meiða aðra eða stela er eðlilegt að þau taki afleiðingum af því og við viljum að þau finni fyrir sektarkennd og jafnvel skömm ef við teljum að þau viti betur og séu fær um að breyta betur.

Svo eru önnur og mun fleiri atvik svo sem þegar barn brýtur glas, rífst við systkini, fer ekki eftir fyrirmælum, gengur ekki nógu vel á prófi o.s.frv. þar sem barnið er hugsanlega skammað eða mætir að minnsta kosti þeim skilaboðum að þau hafi ekki staðið sig nógu vel frá foreldri eða kennara. Slík skilaboð geta verið of ströng eða bara í samræmi við ,,glæpinn“.

Hverju sem líður er mikilvægt að börn geri greinarmun á stórum og smáum mistökum. Bæði getur skort á að við fullorðna fólkið séum nógu skýr í viðbrögðum okkar við hegðun barnanna okkar, en þó er sennilega algengara að börnin okkar þrói með sér of harðan innri gagnrýnanda sem heldur jafnvel áfram skömmum fyrir lítil atvik sem við erum löngu hætt að velta fyrir okkur.

Samkennd er sá eiginleiki að geta sýnt sér skilning svo að við getum orðið sterkari og horfst í augu við að vera ekki fullkomin. Til þess að mæta aftur í tíma eftir lélegt próf, eða biðjast afsökunar á því að hafa skemmt eitthvað, þarf að vera hægt að horfast í augu við sjálfan sig. Enn mikilvægara er að þróa ekki með sér innri harðstjóra sem skammar okkur fyrir minnstu frávik s.s. að mæta fimm mínútum of seint eða gleyma að búa um rúmið okkar.
Við foreldrar verðum að vinna þennan gullna meðalveg að ala börnin okkar upp til ábyrgðar, en um leið hjálpa þeim að vita að þau eru mannleg, líkt og við hin og að mistök og misbrestir eru eðlilegur hluti af ferlinu. Að þau læri að vera sinn eigin best vinur.

Þrír hlutar samkenndar

Það eru í raun þrír hlutar eða partar í samkennd. Það getur verið gott að vita um þá því alla þrjá er hægt að nota í æfingum bæði sér á báti og alla saman til að hjálpa okkur að vera ljúfari við okkur sjálf og dæma okkur ekki eins harkalega.

Velvild gagnvart sjálfum sér

Velvild gagnvart sjálfum sér (self-kindness) eða að vera ljúfur við sjálfan sig þýðir að segja falleg orð við sjálfan þig þegar þú ert að ganga í gegnum erfiðan tíma eða tekur eftir gagnrýni í eigin garð. Segja eitthvað sem þú myndir segja við vin. Kannski eitthvað eins og: ,,ég veit hvernig þér líður” eða jafnvel ,,áfram þú”. Þú gætir líka gert eitthvað gott fyrir sjálfa/n þig eins og að horfa á góða mynd eða lesa skemmtilega bók.

Núvitund

Núvitund (mindfulness) merkir að beina athyglinni að því sem þú ert að upplifa í augnablikinu með forvitni og án þess að dæma. Þegar við erum að gagnrýna eða dæma okkur sjálf getur það hjálpað okkur að gangast við erfiðum tilfinningum. Ef við veitum upplifun okkar athygli í augnablikinu sjáum við að erfiðu tilfinningarnar, dómharkan og gagnrýnin er eitthvað sem mun líða hjá.

Sammannlegt

Sammannlegt (common humanity) er sá skilningur að þú ert að ganga í gegnum eitthvað akkúrat núna sem allir unglingar/ungt fólk gengur í gegnum. Aðrir eru kannski ekki að ganga í gegnum nákvæmlega sömu aðstæður en allir unglingar og fullorðnir komast stundum í uppnám, verða reið, sár, leið, pirruð, einmana og fyrir vonbrigðum. Og stundum finnum við fyrir öllum þessum tilfinningum í einu. Þetta er partur af því að vera mannlegur. Allir fara upp og niður og þá sérstaklega ungt fólk. Þú hefur kannski tekið eftir því að stundum ferðu frá því að finnast þú vera frábær yfir í að líða mjög illa mjög hratt. Þetta hefur að gera með allar þær breytingar sem eru að gerast í líkamanum þínum og utanaðkomandi áhrif eins og skólinn, einkunnir, íþróttir, að passa inn í hópinn. Allir þessir hlutir sem þér finnst þú kannski ekki standa þig alveg nógu vel í.

Ekki hafa áhyggjur. Þú kemst í gegnum þetta allt eins og við hin. Reyndu bara að muna að þú ert ekki ein/n og að líða illa, vera leið/ur, sár, þunglynd/ur eða reið/ur þýðir ekki að þú gerðir eitthvað rangt. Þetta þýðir bara að þú ert manneskja og samkennd getur hjálpað.

Samkennd er sá eiginleiki að geta sýnt sér skilning svo að við getum orðið sterkari og horfst í augu við að vera ekki fullkomin.
Ekki hafa áhyggjur. Þú kemst í gegnum þetta allt eins og við hin. Reyndu bara að muna að þú ert ekki ein/n og að líða illa, vera leið/ur, sár, þunglynd/ur eða reið/ur þýðir ekki að þú gerðir eitthvað rangt. Þetta þýðir bara að þú ert manneskja og samkennd getur hjálpað.