Hreyfing: Hvernig fyrirmynd á ég að vera?

Í okkar samfélagi hefur hreyfing verið mikið tengd þyngdarstjórnun. Það virðist þó ekki vera árangursríkt til lengri tíma að tengja þarna á milli. Hreyfing þarf að snúast um eitthvað annað en þyngdarstjórnun ef við ætlum að auka líkur á að einstaklingur hreyfi sig reglulega út ævina - hlakki til að hreyfa sig og prófi jafnvel reglulega eitthvað nýtt.

Þetta á við um bæði börn og fullorðna. Börn sem alast upp við þessi skilaboð eru líklegri til að þróa með sér neikvæða líkamsímynd með ýmsum afleiðingum. Mun réttara er að tala um hreyfingu sem eitthvað sem á að vera skemmtilegt og styrkir líkamann að innan. Tölum frekar um hreyfingu sem leið til að sofa betur, styrkja hjartað og æðakerfið, upplifa minni streitu og kvíða, vera sterkari, eiga auðveldara með að takast á við erfiðleika af ýmsu tagi, vera með sterkari bein, heila sem virkar betur, minni vöðvabólgu o.s.frv.

Þessi breyting á áherslum getur gert gæfumuninn þegar kemur að því að ala upp börn með heilbrigð tengsl við eigin líkama. Ef hreyfing er alltaf tengd þyngdarstjórnun þá eru minni líkur á að hún verði þessi reglulegi partur af lífinu sem hún þarf að vera. Börn sem alast upp við það að eini tilgangur hreyfingar sé þyngdarstjórnun eru líka líklegri til að tengjast ekki líkama sínum og átta sig illa á því hvernig hann starfar og hvernig þarf að hugsa um hann. Þau eru líka líklegri til að njóta ekki hreyfingar á meðan á henni stendur. Ef allt snýst um hið ytra þá þroska þau ekki með sér góðar leiðir til að hugsa um sjálf sig. Öll verndandi hegðun verður svolítið grunnhyggin.

Hreyfing skiptir svo miklu máli. Hún getur til dæmis komið í stað þunglyndislyfja við vægu til miðlungs þunglyndi. En ef við höfum eyðilagt hana með því að líta á hana sem þyngdarstjórnunartæki er erfiðara að ná henni inn í lífið sem sú einfalda en öfluga forvörn sem hún svo sannarlega er.

Hreyfing er orkugefandi og byrjar að virka um leið og við förum í fyrsta göngutúrinn, þó hann vari bara í 20 minútur. Hreyfing byrjar ekki fyrst að virka þegar við erum búin með 12 vikur í átaksnámskeiði hjá líkamsræktarstöð. Hún byrjar að virka strax. Hún þarf ekki alltaf að snúast um átök, hreyfing getur verið öflug þó fáir svitadropar myndist.

Við getum hreyft okkur ein og við getum hreyft okkur með öðrum. Stundum getur einmitt verið gott að blanda þessu tvennu saman og gera hreyfingu að einhverju sem fjölskyldan gerir reglulega – þó það sé bara á vorin, sumrin og haustin. Hreyfing má sem sagt líka breytast eftir árstíðum. Við getum kennt börnum að eitt hentar á sumrin en annað á veturnar. Það sé ekki svindl að mæta ekki í ræktina þegar sólin er hærra á lofti. Hreyfing þarf ekki að vera áhugamál eftir skóla. Sum börn hafa engan áhuga á fótbolta eða frjálsum. En þau þurfa samt að hreyfa sig – bara á annan hátt. Mikilvægt er að leyfa barni og unglingi að finna þetta út sjálf – og ef þau fá þessi heilbrigðu skilaboð sem hér er lýst þá er líklegt að þau geri það á endanum. Ef þau fá hin skilaboðin þá er hins vegar líklegra að hreyfing verði alltaf skilgreind sem áþján út lífið.

Mun réttara er að tala um hreyfingu sem eitthvað sem á að vera skemmtilegt og styrkir líkamann að innan.