Hvernig á ég að tala við barnið mitt um mat?

Mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um þau áhrif sem þeirra eigið óöryggi gagnvart mat og líkama getur haft á börn og unglinga. Slæm líkamsímynd tengist oft óöryggi gagnvart mat, þetta tvennt verður oft samofið. Mörgum fullorðnum finnst erfitt að treysta á eigin innri rödd þegar matur er annars vegar – og leita í utanaðkomandi lausnir sem eru misgóðar. Þetta óöryggi getur auðveldlega fest sig í sessi og varað jafnvel árum saman. Börn sem alast upp við það smitast eðlilega af því og detta stundum í sama óöryggisgírinn sjálf.

Ef foreldri er oft að breyta um mataræði eða dettur inn og út úr slíkum átökum er gott að deila þeirri baráttu sem minnst með barninu. Þá er til dæmis átt við frásagnir af æfingarprógramminu, lífstílsplaninu eða megruninni. Reynum að gera sem minnst af því að tala um nauðsyn þess að forðast ákveðnar matartegundir eða að þurfa hreyfa sig til að losna við þessi kíló eða til að móta þennan vöðva. Við viljum ekki að börn læri að þörf sé á að leitast í utanaðkomandi stjórn á mataræði eða hreyfingu. Við viljum að þau læri að hlusta á sinn eigin líkama eins og til dæmis seddu- og svengdartilfinningu, átti sig á hvaða matur fer vel í þau o.s.frv.

Algengt er að foreldri tali með samviskubiti eftir að hafa fengið sér köku á kaffihúsi eða í afmæli „nú er ég búin með svindlið í dag“ eða „ þetta var nú meira sukkið – nú verður bara djúsað/fastað á morgun“, „ég tek tvöfalt á því í ræktinni alla vikuna“ o.s.frv. Slík umræða eykur líkur á að barnið muni takmarka fæðu á einhvern hátt, læra að upplifa sama samviskubitið eða læri að líta á hreyfingu sem refsingu en ekki nauðsynlega ánægju. Mikilvægt er s.s. að orðræðan snúist um heilbrigðar lífsvenjur en ekki heilbrigða þyngd.

Fyrir marga er þessi umsnúningur í hugsun erfiður og er það skiljanlegt – samfélag okkar hefur svo lengi einblínt eingöngu á þyngd í þessu samhengi en rannsóknir undanfarna ára snúa athyglinni frekar að heilbrigðu líferni:

  • Góð næring sem leyfir sveigjanleika.
  • Skemmtileg og regluleg hreyfing.
  • Nægur svefn.
  • Árangursrík streitustjórnun.

Barnið þitt og unglingur mun alltaf móta sínar fyrstu hugmyndir um mat og eigin líkama með því að líta til þín. Talaðu um hreysti og styrk í stað kílóafjölda og hitaeininga. Leggðu áherslu á að tala vel um þinn eigin líkama (jafnvel þó þig langi stundum ekki til þess). Borðaðu þegar þú ert svöng/svangur og hættu þegar þú ert orðin södd/saddur. Þetta kallast að borða í núvitund.

Það er samt mikilvægt að muna að engin borðar alltaf í núvitund, það er eðlilegt að borða annars lagið yfir sig eða gleyma því. En ef aðalreglan er að virða merki líkamans og borða oftast í núvitund þá ertu að gera þetta rétt. Hafðu fáar reglur í kringum mat og ekki skilgreina einhvern mat sem bannmat. Það má alveg borða sykur ef það ekki á kostnað næringar og þá í því hófi sem hver og einn finnur fyrir sig.

Nammilaugardaga ætti að forðast. Börn sem alast upp við það læra að nammi sé forboðin fæða og upplifa þá sælgæti sem eitthvað meira spennandi fyrir vikið. Átkasta-stemming á laugardögum er ekki til þess fallin að kenna börnum hver þeirra mörk eru þegar kemur að sykri. Margir unglingar hafa talað um að alast upp við strangar reglur varðandi sælgæti sem varð til þess að þau misstu stjórn þegar þau sjálf fengu sjálfsstæði og fjárráð til að stýra neyslunni sjálf.

Hvað varðar tal um einstaka matartegundir þá gildir það sem sagt er hér að ofan: Ekki skilgreina ákveðinn mat sem bannmat nema um ofnæmi sé að ræða eða skýrar læknisfræðilegar ástæður.

Samantekt:

  • Þegar gengið er of langt í einhverju sem á að bæta heilsu verður til ójafnvægi.
  • Mikilvægt er því að foreldrar geri ekki mikið úr eigin ákvörðunum varðandi takmarkanir á mat fyrir framan börn sín og unglinga.
  • Borðum í núvitund og þekkjum merki líkamans. Munum að það er ekki alltaf hægt að borða í núvitund - og það er allt í lagi.
  • Mikilvægt er að útskýra hvernig ákveðinn matur hjálpar líkama okkar, gerir okkur sterk og hraust.
  • Gott er að tala um mikilvægi þess að láta næringu ganga fyrir.
  • Fjölbreytni er það sem skilar mestu til lengri tíma - ekki boð og bönn.
  • Foreldrar eru mikilvægar fyrirmyndir þegar kemur að fjölbreytninni.
  • Bragðskyn barna tekur tíma að þróast og mikilvægt að gefast ekki upp þó grænmeti slái ekki í strax gegn.
Barnið þitt og unglingur mun alltaf móta sínar fyrstu hugmyndir um mat og eigin líkama með því að líta til þín.