Uppeldi með núvitund

Sex ráð varðandi núvitund í uppeldi

  1. Gefðu þér rými og mundu eftir því að anda
  2. Leyfðu þér að hægja á og gefðu börnunum það leyfi einnig
  3. Færðu núvitund markvisst inn í daglegar athafnir og samveru með barninu
  4. Nýttu skynfærin til að styðja þig í að vera heilshugar til staðar
  5. Mundu að enginn er fullkominn, gerðu hvorki þá kröfu á þig né barnið þitt
  6. Nærðu gleði og sýndu væntumþykju í orði og verki
  7. Ræktaðu þakklæti og varðveittu góðar stundir í huga þér með því að vera andlega til staðar

Uppeldi með núvitund

Kjarninn í núvitund er að vita hvað maður er að gera um leið og maður er að gera það. Að vera meðvitaður um það sem er að gerast innra með manni og í kringum mann og veita því vakandi athygli með mildi, yfirvegun og opnum huga. Að vera til staðar í eigin lífi á meðan það er að gerast.

Öll getum við þjálfað okkur í núvitund. Við búum yfir þessum eiginleika við upphaf lífsgöngunnar en höfum náð misvel að hlúa að núvitundinni og þurfum mismikið að hafa fyrir því að halda henni við og rækta hana.

Ungum börnum er það eðlislægt að veita hlutum í kringum sig vakandi athygli og með opnum huga, enda allan daginn að uppgötva og sjá heiminn í fyrsta sinn. Oft tekst þeim að viðhalda þessari hæfni en hraði og áreiti samfélagsins gerir þeim gjarnan erfitt fyrir. Lífið er alls konar og það færir okkur fjölbreyttar áskoranir frá unga aldri. Það er eðlilegt að finna fyrir öllum tilfinningum og í raun fylgir því að vera manneskja að finna fyrir reiði, sorg, hamingju, söknuði, eftirsjá, gleði, pirringi og svo framvegis.

Það að finna fyrir öllum tilfinningum og læra að takast á við þær er hluti af lífinu. Eitt af meginverkefnum þessa lífs er að þroskast og læra að takast á við það sem á vegi okkar verður. Börn og ungmenni eru að æfa sig í þessu alla daga, að átta sig á hvernig heimurinn og lífið virkar og hvernig hægt sé að takast á við það. Reyndar eru þetta einnig verkefni fullorðinsáranna og út allt lífið. Er ekki þroski eitt af meginverkefnum lífsins? Ef við erum andlega fjarverandi og höldum huganum okkar uppteknum á sjálfsstýringunni þá missum við af fjölmörgum tækifærum til að þroskast og læra á lífið.

Núvitund getur hjálpað börnum og fullorðnum við að þroskast og takast á við áskoranir daglegs lífs og öðlast meiri hugarró og vellíðan. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að núvitundarþjálfun hefur fjölþætt jákvæð áhrif á vellíðan og heilbrigði. Líkt og líkamsrækt þá hefur hugarrækt á borð við núvitundarþjálfun jákvæð áhrif á vellíðan, dregur úr líkum á ýmsum sjúkdómum, styrkir ónæmiskerfið og dregur úr kvíða, streitu og þunglyndi. Þá hjálpar núvitund okkur að vera betur tengd við okkur sjálf og aðra, styrkir sjálfsmynd okkar, samskipti verða innihaldsríkari og velvild í eigin garð og annarra eflist. Allt eiginleikar sem eru mikilvægir í þroskaferli lífsins. Þá sýna rannsóknir einnig að núvitundarþjálfun foreldra getur haft jákvæð áhrif á samskipti foreldra og barna, streitu foreldra, uppeldisaðferðir, samskipti og samvinnu foreldranna sjálfra.

Það er í höndum okkar fullorðna fólksins að skapa börnum aðstæður og hvetja þau til að næra núvitund sína. Það gerum við best með því að vera góðar fyrirmyndir sjálf og gefa okkur tíma til að sjá heiminn með þeirra augum, að nálgast líðan og umhverfi með forvitni og opnum huga. Að við leyfum börnum að upplifa og vera til staðar í stað þess að gera kröfu á að þau séu í sífelldri dagskrá og taki þátt í upptekinni veröld fullorðna fólksins. Að við leyfum okkur að staldra við og dvelja í forvitni um undur daglegs lífs. Taka eftir blóminu sem er að vakna til lífsins, steininum sem liggur á gangstéttinni, skýjunum sem færast yfir himinninn og svo framvegis. Gefum okkur stund með börnunum til að upplifa með þeim. Gefum þeim rými til að næra sína núvitund og upplifa í gegnum skynfærin um leið og við sjálf stöldrum við og upplifum með þeim.

Það má lýsa uppeldi með núvitund sem opinni, fordómalausari og hjartahlýrri meðvitund gagnvart barninu og okkur sjálfum. Með því að einsetja okkur að rækta núvitund er mögulegt að ná stjórn á eigin ótta, kvíða og fordómum og velja hjálplegri leiðir til að bregðast við krefjandi aðstæðum með börnum okkar.
Uppeldi, með núvitund að leiðarljósi, felur í sér að uppalendur leggja sig fram um að hlusta og veita athygli, gefa sér andrými til að bregðast við yfirvegað. Bregðast við með opnum og fordómalausum huga, tilfinningalegri meðvitund og samkennd fyrir sjálfum sér og barninu. Það þýðir ekki að það séu ekki sett mörk eða leiðbeint um hegðun en það er gert með yfirvegun og virðingu fyrir barninu.

Þegar við sem uppalendur náum að vera í núvitund sjálf þá stuðlum við að vellíðan barnanna um leið og við stuðlum að eigin jafnvægi og vellíðan. Uppeldi með núvitund felur í sér samkennd og virðingu fyrir sérstöðu hvers barns. Á erfiðum stundum hættir okkur til að sýna ósjálfráð viðbrögð sem rekja má til vanabundinna og stundum skaðlegra hugsanaferla sem oftar en ekki eiga rætur að rekja til okkar eigin æsku. Ef við erum okkur ekki meðvituð um þetta er líklegra að við bregðumst við á vanabundinn hátt og það er engum hollt, hvorki barninu né okkur sjálfum.

Það eru „úlfatímar“ á öllum heimilum, álagstímar þar sem allir koma heim þreyttir eftir langan vinnudag, börn og fullorðnir. Í stað þess að halda áfram með skipulagða dagskrá og halda áfram að gera og græja þá er dýrmætt að skapa rými til að bara vera. Ekki GERA neitt sérstakt heldur að VERA bara saman.

Tölva, sími og önnur snjalltæki eru fastir fylgihlutir daglegs lífs og góðra gjalda verð, gott getur verið að hvíla lúin bein og huga okkar með því að horfa á afþreyingu. En ef þessi tæki eru notuð til að deyfa eða slökkva á tilfinningum og taka frá börnum tækifæri til að takast á við krefjandi tilfinningar eins og pirring eða reiði þá er það ekki hjálplegt. Það getur verið freistandi að rétta ungum börnum snjalltæki þegar þau sýna sterkar tilfinningar og skap sitt. Þegar það er gert missa börnin af tækifæri til að læra að takast á við tilfinningar sínar og það getur hamlað þroska þeirra.

Sama er það þegar upp koma ósætti í samskiptum, hvort sem það er á milli systksina eða vina, ef við fullorðna fólkið stökkvum strax til og gefum þeim ekki færi á að leysa úr sínum málum þá missa börnin af tækifæri til að læra að takast á við samskiptavanda og það hvernig hægt er að leysa úr ágreiningsefnum. Við þurfum að gefa þeim rými til að þroskast og takast á við þær áskoranir sem fylgja því að vera manneskja.

Það er mikilvægt að leyfa börnunum að vera eins og þau eru, bera virðingu fyrir því að öll erum við ólíkir einstaklingar en engu að síður eigum við svo margt sameiginlegt. Þar á meðal djúpstæð þörf okkar allra að vera virt fyrir það sem við erum, að á okkur sé hlustað og að við fáum að hafa sjálfstæða rödd, að við finnum fyrir skilyrðislausri ást og okkur sýndur skilningur. Síðast en ekki síst þá eigum við öll þá einlægu ósk að við og þeir sem okkur þykir vænt um finni hamingju og vellíðan.

Það gerum við best með því að vera góðar fyrirmyndir sjálf og gefa okkur tíma til að sjá heiminn með þeirra augum, að nálgast líðan og umhverfi með forvitni og opnum huga.
Það má lýsa uppeldi með núvitund sem opinni, fordómalausari og hjartahlýrri meðvitund gagnvart barninu og okkur sjálfum.