Virk hlustun
Þetta verkefni er ætlað börnum á eldri árum grunnstigs.
Okkur gengur betur að eignast vini og viðhalda vináttu þegar við lærum að sýna vinum okkar áhuga og hlusta af einlægni. Hlustun í samskiptum er eitthvað sem flestir þurfa að æfa - börn og fullorðnir. Sumir verða mjög góðir í þessu fljótt og aðrir þurfa alltaf að minna sig á. Stundum getur maður þó átt daga þar sem einlæg hlustun er erfið og það er allt í lagi. Aðalatriðið er að vita af því að góð virk hlustun skiptir máli í vináttu en engin er góður í þessu alltaf.
Hér eru nokkur atriði sem skipta máli þegar maður æfir sig í að hlusta - hægt er að prenta verkefnið út hér að neðan:
Halda augnsambandi
Hér er átt við að sýna hinum aðilanum áhuga með því að horfast reglulega í augu við hann meðan hann talar. Með því sýnum við að það sem hann er að segja skiptir máli og við viljum vita meira. Okkur líður vel þegar vinir okkar sýna að þeim finnst við skipta máli. Ekki þarf að stara í augu hins samt sem áður.
Ef þér finnst erfitt að horfa í augu fólks getur þú æft þig meira með hin atriðin.
Lifandi samskipti
Þegar vinur talar getur líka verið gott að kinka kolli og sýna önnur svipbrigði á meðan við tölum saman. Við sýnum önnur svipbrigði þegar vinur okkar er að segja eitthvað sem er sorglegt og svo enn önnur þegar vinur okkar segir eitthvað sem er hlægilegt og skemmtilegt. Við skiptum svo á milli eftir því um hvað samtalið fjallar.
Spyrja spurninga
Góð hlustun snýst líka um að tala sjálfur og spyrja spurninga um það sem vinur okkar er að segja frá. Til dæmis ef vinur er að segja okkur frá því að hann eða hún hafi fótbrotnað þá getum við spurt hvort þetta hafi verið vont, hvað læknirinn hafi gert og hvernig hafi verið á spítalanum osfrv. Með tímanum getum við líka æft okkur í að finna hvað eru of margar spurningar. Góð regla er að sýna áhuga og skipast þannig á að tala. Síðan getum við sjálf sagt frá einhverju sem hefur komið fyrir okkur og tengist því sem vinurinn var að segja okkur frá.
Halla sér að
Stundum getur verið sniðugt að halla sér aðeins að vini meðan hann talar um eitthvað sem virkilega skiptir máli. Þá sýnum við að við höfum einlægan áhuga á því sem hann er að segja.
Margir að tala saman
Þegar margir eru að tala saman þá er gott ráð að horfa alltaf á þann sem er að tala. Þannig helst áhuginn stöðugur í hópsamtalinu. Mundu að ef þér finnst erfitt að horfa í augun á fólki þá getur þú fundið aðra leið og notað önnur atriði sem hér eru nefnd til að sýna áhuga.
Ekki detta inn í símann
Í samtali við annan vin eða marga vini er eitt það allra mikilvægasta að sýna áhuga hvernig sem við förum að því. Ef vinur er að segja okkur frá einhverju og við horfum mikið á símann okkar þá getur vininum fundist við ekki hafa áhuga og að hann skipti okkur ekki máli.
Þessi myndbönd eru áhugaverð og hjálpa okkur að eiga þessi samtöl við börn: