Unglingarnir okkar lifa og hrærast í sama heimi og foreldrar þeirra gerðu að því leyti að það að falla inn í hópinn skiptir öllu máli.  Krafan hefur alltaf verið talsverð þegar kemur að því að skera sig ekki of mikið úr.  Í dag er staðan hins vegar orðin nokkuð verri vegna áhrifa samfélagsmiðla og áhrifavalda þar.  Þessir miðlar hafa jafnvel talsverð áhrif á fullorðið fólk.  Við erum farin að tala um að “besta okkur” og “vera ávalt besta útgáfan af sjálfum sér” osfrv.  Þetta eru slagorð sem við mælum ekki með að bera mikið á borð þó að góður hugur sé á bak við.

Það virðist ekki vera gagnlegt fyrir almenna hamingju að vera sífellt að reyna að vera besta útgáfan af sjálfum sér.  Líklega er sú útgáfa ekki til.  Við sitjum alltaf uppi með mennskuna okkar - að við erum í grunninn ófullkomin og munum alla okkar ævi eiga alls konar daga - góða og slæma, árangursríka daga og daga sem við náðum ekki að gera mikið.  Við munum eiga stundir sem við blómstrum og stundir sem við gerum það ekki.  Við munum sveiflast fram og til baka í alls konar ófullkomleika og það er hið mannlega líf - og mikilvægt að finna sátt við það.  Kannski er best að reyna að vera nokkuð sæmilega góð útgáfa af sjálfum sér.

Börn og unglingar geta tekið svona slagorð og misskilið þau þannig að ávalt eigi að sækjast í fullkomnun.  Fullorðið fólk getur gert það líka - því getur samtalið um að þora að vera mannlegur og ófullkomin verið mikilvægt.

Foreldrar í dag standa því frammi fyrir því stóra verkefni að aðstoða unglinginn sinn til að sættast við eigin mennsku á sama tíma og þessi sami unglingur tekst á við kröfurnar í samfélaginu sem sendir þau skilaboð að fullkomnunin sé það sem stefna skuli að.

Ein leið til að hjálpa unglingnum þínum til að vera öruggari í félagslegum samskiptum er að aðstoða hann við að tileinka sér þá sýn að markmiðið sé að vera ófullkomin og mannlegur.  Þetta tekst með endurteknum samtölum sem efni hér að neðan aðstoðar vonandi við.

Einnig getur verið hjálplegt að nota Sterkari út í lífið appið og þá einkum samkenndarhugleiðslurnar þar.

En aðalverkefnið er að eiga samtal (oft og mörgum sinnum - stutt og löng) og nota atriðin hér að neðan til stuðnings.

  1. Ræða daglegt líf þar sem tilgangurinn er að vera mannlegur.  Setjð til dæmis upp þá æfingu að grípa mistök í gegnum daginn og líta á þau sem hluta af mannlegri tilveru en ekki merki um að eitthvað sé að þér.  Það er gott að setja sér markmið, stefnu og hafa metnað - en það er aldrei hægt að lifa lífi án mistaka.
  2. Taktu dæmi af sjálfum þér  - hvenær hefur þú vera mannlegur - gert mistök og verið ófullkomin án þess að það hafði afgerandi áhrif á líf þitt?
  3. Ræðið tengsl við aðra og hvernig við virðumst tengjast betur þegar við erum ekki með þá kröfu á okkur sjálf að vera fullkomin - og setjum þá kröfu ekki heldur á aðra.   Það er eins og allir slaki betur á og nái betri tengslum.  Finndu leið til að útskýra þetta sem hentar þínum unglingi og taktu dæmi úr eigin lífi - og lífi barnsins ef það er hægt.
  4. Æfið aðferðirnar í þessari verkfærakistu í nokkrar vikur:  Samkennd.  Sjáðu svo hvernig ykkur líður - líklega viljið þið halda áfram að æfa ykkur.  Ekki þarf að æfa allar - veljið ykkar uppáhalds.   Ein meginstoð vísindanna á bak við samkennd gagnvart sjálfum sér (self-compassion) er að læra að tengjast hinu sammannlega (common humanity).  Þegar við gerum það virðumst við slaka á, upplifa okkur síður ein og náum betri árangri í lífinu.
  5. Farið yfir gildaverkefni (Sjálfsmynd og gildin í lífinu – Sjálfsmynd (sterkariutilifid.is)) og ræðið vel í tengslum við þetta.  Í staðin fyrir að fókusa á vera besta útgáfan af sjálfum sér leggja sálfræðingar meira upp úr því að fólk finni gildin sín, læri sem sagt að þekkja sjálfan sig og stefna að lífinu sem þeim langar að lifa, setji sér markmið í takt við gildin og forðist kröfur sem engin leið er að ná.  Mikilvægt er að leyfa gildunum svo að hjálpa ykkur að taka ákvarðanir og leysa vandamál.
  6. Ræðið almennt um áhrifavalda og samfélagsmiðla og tengsl við löngun í eitthvað sem er fullkomið.  Reynið að ýta undir gagnrýna hugsun í þessu samtali - skoðið allar hliðar.  Frekari æfingar í gagnrýnni hugsun má finna hér Gagnrýnin hugsun – Sjálfsmynd (sterkariutilifid.is)

Þessi myndbönd eru áhugaverð og góð viðbót við samtalið:

https://youtu.be/M759yNSOTMs?si=tGgY7MwJNYmqGPTH

https://youtu.be/ix6m4vD9KD8?si=Upv10g0lrstaPYF_