Þakklæti er sú dyggð sem hefur einna sterkust áhrif á hamingju einstaklinga. Þakklæti hjálpar fólki að upplifa jákvæðar tilfinningar, lifa við betri heilsu, takast betur á við streitu og byggja upp sterkari sambönd. Við getum fundið þakklæti þegar við skoðum eitthvað í fortíðinni, í núinu og það sem við eigum von á í framtíðinni. Það er alltaf hægt að auka þakklætisupplifun. Það hvað mikið þakklæti þú finnur í dag er nefnilega ekki háð því hversu mikið þakklæti þú upplifðir í gær.

Undanfarin ár hefur þakklæti verið rannsakað talsvert mikið og áhrif þess á lífshamingjuna. Til dæmis fannst talsverður munur á hamingju einstaklinga sem hélt þakklætisdagbók og þeirra sem héldu bara venjulega dagbók eða enga. Þegar þú heldur þakklætisdagbók eða gerir reglulega aðrar þakklætisæfingar færðu tækifæri til að ramma lífið inn upp á nýtt og upplifa hamingjuna strax. Þessar æfingar hjálpa þér að beina athyglinni að því sem þú hefur en ekki bara að því sem þú hefur ekki.  Við ætlum því að æfa okkur í að gera þakklætisdagbók - og kynnast þakklætinu aðeins nánar.

Leiðbeiningar til foreldra/kennara:

Gott er að æfa þessa æfingu sjálfur og venja sig á að finna þá hluti sem maður er þakklátur fyrir. Þetta gefur barninu gott fordæmi og hjálpar til við að gera útskýra verkefnið fyrir barninu.

Þakklætisdagbók er hugsuð sem æfing í að koma betra jafnvægi á það sem við veitum eftirtekt dagsdaglega. Við erum líklegri til að taka eftir því sem er erfitt eða gengur illa. Með því að leita markvisst að einum jákvæðum punkti eða einhverju til þess að vera þakklát fyrir getum við reynt að jafna vogarskálarnar.

Við svona æfingu er aðalatriðið að geta fundið eitthvað til þess að þakka fyrir á hverjum degi, jafnvel þegar dagurinn hefur verið erfiður. Sumar færslur verða sennilega um eitthvað stórt og merkilegt en aðrar verða um lítil atriði sem margir myndu telja ómerkileg, t.d. að hádegismaturinn í skólanum hafi verið betri en í gær eða að það sé gott að vera búin með erfitt próf. Suma daga gæti þakklætið bara snúist um að erfiður dagur sé að verða búinn.

Þessa æfingu getur hver og einn gert fyrir sig en það er líka hægt að gera hana sem hópur.

Fjölskylduútgáfan:

Þessi æfing er fyrir alla í fjölskyldunni. Hana má gera á morgnana, kvöldin eða fyrir háttinn. Aðalatriðið er að velja tíma dags þegar allir eða sem flestir koma saman og hafa smá stund til þess að fara yfir daginn.

Farið einn hring við morgunverðarborðið og hver fjölskyldumeðlimur segir frá einhverju sem hann hlakkar til við daginn sem er framundan (dæmi: hitta Siggu vinkonu í skólanum, vera búin með stærðfræðiprófið, fá pizzu í kvöldmatinn o.s.frv.)

Farið einn hring við kvöldverðarborðið og hver fjölskyldumeðlimur segir frá einhverju sem hann er þakklátur fyrir eftir þennan dag sem er að líða.

Við háttartímann: Foreldri og barn eiga stund saman fyrir háttinn og bæði  velja eitt atriði sem þau eru þakklát fyrir við daginn.

Bekkjarútgáfa:

Kennari velur tíma dags, t.d. nestistíma eða upphaf eða endi kennsludags og allir í bekknum fara hringinn og segja frá einu atriði sem þau eru þakklát fyrir. Hér eru nokkar útfærslur á verkefninu:

Hver nemandi segir frá einu atriði í lífi sínu sem hann er þakklátur fyrir (kennari byrjar og velur eitthvað sem er ekki of stórt, t.d. hve mjúkt rúm hann á eða nafn á vin sem hann kann að meta í lífi sínu).

Önnur útgáfa er að láta hvern nemanda skrifa niður á blað hvað hann eða hún er þakklát fyrir í lífi sínu og lesa svo upp af blöðunum fyrir hópinn eða búa til verkefni úr öllum svörunum.

Einnig er hægt að láta nemendur skrá niður í eina viku hvað þau voru þakklát fyrir þann daginn og skila því svo inn til kennara.

Hér að neðan er dæmi um uppsetningu á verkefninu: