Hugsanir okkar eru gjarnan ósjálfráðar og ómeðvitaðar en geta haft áhrif á tilfinningar okkar og hegðun. Því getur verið mikilvægt að æfa sig að taka eftir þeim og áhrifum þeirra á líðan okkar. Hugsanir okkar þurfa ekki að skilgreina okkur, það þýðir að við erum ekki hugsanir okkar þó okkur líði oft þannig. 

  • Hugsanir eru bara hljóð, orð, sögur eða partar af tungumáli. 
  • Hugsanir geta og geta ekki verið sannar. Við eigum ekki að trúa þeim skilyrðislaust. 
  • Hugsanir geta og geta ekki verið mikilvægar. Við veitum þeim einungis athygli ef þær eru hjálplegar. 
  • Hugsanir eru ekki skipanir. Við þurfum ekki að hlýða þeim. 
  • Hugsanir geta verið vitrar en margar eru það alls ekki. Við þurfum því ekki að fylgja ráðum þeirra. 
  • Hugsanir eru aldrei ógnandi. Við eigum aldrei að leyfa þeim slíkt vald yfir okkur. Sama hversu sársaukafullar og erfiðar þær verða.

 

Stundum festumst við í erfiðum hugsunum og tilfinningum. Það er okkur eðlislægt að vilja losna við þannig hugsanir. Ef við gætum raunverulega valið, þá myndum við líklega ekki velja sumar af þeim hugsunum sem við fáum. Það virkar sjaldan að reyna að losna við hugsunina. Prófaðu að reyna að hugsa ekki um bleikan fíl í 30 sekúndur. Hvað gerist?

Margir foreldrar leita leiða til að aðstoða unglinginn sinn út úr slíkri líðan. Ein leið sem hægt er að nota eru svokallaðar fjarlægðarleiðir (diffusion). Þá er unglingurinn þjálfaður í að taka eftir erfiðum hugsunum og mynda fjarlægð á þær. Þegar við festumst í holu með erfiðri líðan og hugsanirnar hreinlega taka okkur yfir er svo miklu erfiðara að berjast við þær. Þegar við myndum fjarlægð verðum við ekki jafn föst í erfiðum hugsunum og tilfinningum. Þegar okkur líður illa og erum að fást við krefjandi hugsanir eins og vonleysi eða niðurrif getur verið gagnlegt að æfa okkur í aðferðum sem gefa okkur fjarlægð frá þeim í stað þess að falla alveg ofan í þær.  

Stundum getur þessi leið virkað betur en að fara að rífast við erfiðu hugsanirnar og setja inn aðrar jákvæðari.  Erfiðar hugsanir geta verið kvíðahugsanir, vonleysishugsanir, samanburðarhugsanir, sjálfsefahugsanir og svo framvegis.  Svona hugsanir geta komið upp í aðstæðum sem tengjast vinamálum og samskiptum, aðstæðum sem eru kvíðavaldandi,  útlitspressu og ýmsu öðru.  

Með þessum æfingum erum við ekki að reyna að losna við hugsanirnar – heldur að minnka áhrif þeirra á okkur og ná betur að brjótast frá þeim. Hægt er að nota nokkrar leiðir til þess en til að hjálpa unglingnum þínum að skilja þetta betur er gott að byrja á að skoða þessi myndbönd.

Æfum þetta svona:

Reyndu að búa til umhverfi þar sem unglingurinn þinn er öruggur með að opna á sínar tilfinningar og hugsanir. Það getur verið erfitt að hlusta á unglinginn segja frá erfiðum hugsunum en reyndu að standast þá freistingu að reyna að sannfæra unglinginn með rökum að hugsa ekki á þennan hátt. Lykillinn er að hlusta og hlusta og hlusta svo meira. Reyndu að fá unglinginn til að taka eftir hugsunum sínum og spurðu hann út í þær.

Þegar þið hafið átt samtal um hinar ýmsu erfiðu hugsanir sem unglingurinn gæti haft skulið þið horfa á myndböndin hér að neðan og vinnið svo verkefnið sem er hér neðst.  Hægt er að nota það aftur og aftur.