Sundferð – æfing til að styrkja líkamsímynd
Það er algengara meðal stelpna en stráka að finnast skyndilega erfitt að fara í sund. Sundferðir eru erfiðar fyrir suma fullorðna líka og tala margir um að það hafi byrjað á unglingsárunum. Hins vegar eru sundferðir eitt af því öflugasta sem hægt er að gera þegar æfa á sterkari líkamsímynd. Þar er bæði hægt að æfa það að standa með sér í hegðun (hvernig þú gengur inn í sturtuklefann, hvernig þú hagar þér þar, hvernig þú gengur út í laugina o.s.frv.) og svo breytingu á sjálfstalinu, hugsunum um líkamann og útlitið sem móta líkamsímyndina að miklu leyti. Dæmi um slíkt er t.d. samanburðarsjálfstal þar sem þú leyfir huganum að festast í samanburði við aðra sem lætur þér líða illa eða niðurrifssjálfstal þar sem þú festist í gagnrýni á sjálfa/n þig.
Þetta er ferli sem hefst oftast á miðstigi og unglingastigi. Þá byrja oft erfiðleikar með líkamsímyndina sem eiga það til að festast í sessi til lengri tíma.
Þetta verkefni skiptist í tvennt:
- Samtal um sund og líkamsímynd.
- Eiginlegar sundferðir þar sem við æfum aðra hegðun og hjálplegra sjálfstal.
Byrjið á að horfa á þetta myndband sjálf og svo með barninu ykkar:
A. Samtalið:
Farið yfir það hvernig ykkur líður eftir að hafa horft á myndbandið og eigið samtal um sundferðir og líkamsímynd. Ef barnið þitt upplifir ekki það sem kemur fram í myndbandinu gæti samt verið gott að ræða sundferðir sem tækifæri til að styrkja líkamsímyndina. Þá er hægt að ræða hvernig hægt er að viðhalda góðri líkamsímynd. Leiðið svo barnið í gegnum æfinguna hér að neðan og svo sundferðina sjálfa - hvort sem þið farið með í sund eða ekki.
Dæmi um umræðupunkta:
- Líður ykkur eins og einhverri stelpunni í myndbandinu?
- Hefur ykkur einhverntíma liðið þannig, þó það sé liðin tíð?
- Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við að fara í sund?
- Hvað finnst öðrum stelpum/strákum í kringum þig?
- Hvað hefur þú gert til að eiga auðveldara með að fara í sund ef það er erfitt?
- Eru einhverjar hugsanavillur að trufla þig? Sjá verkefnið Hugsanavillur og líkamsímynd.
- Hvernig getur þú svarað þeim? Hvað væri hjálplegra að segja?
- Gerðu lista af hjálplegum setningum. Hægt er að nota listann í þessu verkefni sem dæmi: Ef mér þætti meira vænt um líkama minn…
B. Sundferð:
Næsti liður þessa verkefnis er að fara í sund með ákveðnu hugarfari. Hægt er að gera það með foreldrum eða senda barnið eitt (fer eftir aldri og aðstæðum, oft er hægt að nota skólasundið). Mundu að gera æfinguna sjálf/ur ef þess þarf.
Leiðbeindu barninu: Notaðu hjálplegu hugsanirnar þínar meðan þú ert í búningsklefanum og sturtuklefanum. Taktu þér tíma í sturtuklefanum. Gangtu hægt og rólega út í laugina eða heita pottinn. Ekki flýta þér bara til að komast ofan í vatnið fyrr. Farðu með hjálplegu hugsanirnar í huganum nokkrum sinnum á meðan þú gengur út.
Á meðan á allri sundferðinni stendur skaltu spá aðeins í það hvernig þú hugsar til hinna sem þú sérð? Hverjir eru stoltir af líkama sínum og hverjir eru óöryggir og að reyna að fela hann? Sendu þeim góðar hugsanir. Hvernig sýni ég líkama mínum að mér þyki vænt um hann í þessari sundferð?
Prófaðu að ganga á milli pottana eða laugarinnar og pottanna. Reyndu að hreyfa þig aðeins um sundlaugarsvæðið þó það sé bara tvisvar til þrisvar. Æfðu hjálplegu hugsanirnar á meðan.
Þegar þú ert búin í sundi þá skaltu skoða það hvernig þér líður. Breyttist eitthvað?
Þetta er æfing sem þarf að endurtaka nokkrum sinnum til að ná árangri. Mundu að æfingin snýst ekki bara um að eiga auðveldara með að fara í sund heldur að styrkja líkamsímyndina almennt séð.