Styrkleikarnir mínir
Margir eiga það til að vanmeta hæfileika sína, taka lítið eftir þeim eða jafnvel gera lítið úr þeim. Mörgum finnst óþægilegt að tala um styrkleika sína og finnst þeir vera að monta sig.
Allir eru með margs konar styrkleika. Þar gildir einu hvort einhver annar sé mögulega betri en við í því sama. Það er eflaust til betri söngkona en Beyoncé, betri fótboltamaður en Gylfi Sigurðsson og betri fjallgöngukona en Vilborg Arna. Það þýðir þó ekki að þessir einstaklingar séu ekki hæfileikum gæddir eða hvað?
Oft þegar við skoðum styrkleika okkar þá tökum við á sama tíma eftir takmörkunum okkar. Við skoðum styrkleikana eða hæfni út frá því sem okkur vantar eða því sem við viljum styrkja okkur eða þjálfast í. Þótt það sé að sjálfssögðu jákvætt og gagnlegt að skoða hvað má gera betur og þjálfast í sem bæta má, þá tökum við sjaldnar eftir því sem við raunverulega erum að gera vel. Þessi æfing er einföld og er ein leið til að gera okkur meðvituð um raunverulega styrkleika okkar, án áherslu á það sem betur má fara hjá okkur. Það getur verið mikilvægt að skoða það og setja sér markmið en þessi æfing snýst ekki um það.
Nýtið þessa umræðupunkta í samtal um styrkleika. Munið sem fyrr að það er gott að foreldrar geri æfinguna líka.
- Skráðu niður 5-10 styrkleika í fari þínu - eða bara eins marga og þú getur.
- Fyrir hvern styrkleika/hæfileika skalt þú útskýra hvernig þessi hæfileiki getur birst í daglegu lífi. Til dæmis, ég er góður hlustandi, ég er traustur vinur og stend með vinum mínum. Ég er góð í íþróttum, ég er góður í skilja hvernig öðrum líður, ég kann vel að skipuleggja mig, ég hleyp hratt, ég kann vel á útilegur, ég hef góðan húmor, ég teikna vel, ég kann að hugsa um dýr o.s.frv.
- Hvað get ég gert til að minna mig oftar á þá hæfileika/styrkleika sem ég bý yfir? Dæmi: Skrifa í dagbók og kíkja stundum á það sem ég skrifaði. Taka oftar eftir því þegar ég nota hæfileika mína og styrkleika og biðja foreldra mína um að nefna það þegar ég geri það.
- Rifjaðu svo upp á hverju kvöldi eitthvað tvennt sem þú hefur gert vel í dag. Byrjaðu svo næsta dag með því að rifja upp góðu hluti gærdagsins.
- Ef þú gerðir verkefnið um gildi sem er í þessari verkfærakistu - hvernig tengjast hæfileikar þínir og styrkleikar gildunum í lífi þínu?