Markmið: Virk hlustun, einbeiting, að móta spurningu og samræður.

Lýsing:

Allir þátttakendur semja spurningu eða spurningar og skrifa niður á blað. Spurningarnar eiga að vera þannig að mögulegt sé að svara þeim neitandi eða játandi. Hér fylgja nokkrar spurningar sem þátttakendur í þessari æfingu hafa samið:

  • Er sænski fáninn bleikur og gulur?
  • Eru stólar hér inni?
  • Heitir þú Bjarni
  • Er snjór úti?
  • Er Evrópa heimsálfa?
  • Er tyggjó með tyggjóbragði?
  • Eru einhyrningar til?
  • Er Eiffelturninn í New York?
  • Eru til skór?
  • Vita foreldrar þínir að þú ert skotin(n) í Sunnu?

Þegar allir hafa lokið við að skrifa spurningarnar niður safnar stjórnandinn þeim saman. Síðan spyr hann hvern og einn þátttakanda og ef svarið er já þá segir þátttakandinn nei og ef svarið er nei þá svarar þátttakandinn já.

Stjórnandi reynir að láta spurnarferlið ganga hratt fyrir sig til þess að takmarka umhugsunartíma þess sem svarar hverju sinni. Hlutverk annarra þátttakenda er að taka eftir því hvort sá sem svarar svari rétt eða rangt og ef svarið er rangt þá láta þeir vita.