Þetta er æfing sem hentar vel fyrir börn sem lúffa oft fyrir öðrum en einnig þau sem eiga það til að valta yfir vini - eiga erfitt með að semja sig í milliveginn.

Öll sambönd eru þannig að tveir eða fleiri eru að reyna að fá sínu framgengt. Stundum vilja vinir sama hlutinn - félagsskap, skemmtun, afþreyingu, rólegheit og kósýheit. Þegar við viljum það sama þá ganga samskiptin vel. En stundum viljum við sitthvorn hlutinn - erum ekki sammála. Þá reynir á og pirringur getur aukist.

Börn sem læra snemma að semja og finna milliveginn gengur oft betur að fóta sig í mikilvægum samböndum framtíðarinnar. Einnig eiga þau auðveldara með að halda þeim vinum sem þau eignast. Þetta er öflug hæfni að æfa og styrkir alla vináttuhæfni til muna. Ef þetta atriði hefur verið til vandræða á ákveðnum vinahóp getur verið gagnlegt að ræða við alla foreldra og athuga hvort allir geti æft þetta á sama tíma - þá næst bestur árangur.

Hægt er að fylgja atriðunum og spurningunum hér að neðan til að eiga gott samtal við barnið um þetta.

Til að vinasamband gangi upp þurfum við að geta gert eftirfarandi:

  • Vita hvað við viljum eða viljum ekki og segja frá því. Aðrir lesa ekki hugsanir okkar.
  • Hlusta eftir því hvað vinurinn virðist vilja og spyrja nánar.
  • Ef þetta tvennt passar ekki saman þarf að finna milliveg sem báðir geta sætt sig við. Það þarf að semja. Þá er best að semja þannig að báðir fái eitthvað af því sem þeir vilja.
    • Stilla klukku og gera það sem vinurinn vill í 30 mín og svo það sem þú vilt í 30 mín.
    • Kasta upp á hver byrjar - eða nota Skæri, Steinn,
    • Gera það sem þú vilt í dag og það sem vinurinn vill á morgun.
  • Reyna að koma sem mest til móts við vininn án þess að fórna alveg eigin þörfum. Báðir fá eitthvað af því sem þeir vildu.

Umræðupunktar:

  • Ræðið við barnið um svona aðstæður. Takið dæmi af eigin lífi og biðjið barnið um að finna eigin dæmi.
  • Stundum vill vinurinn ekki semja - hvað er þá hægt að gera?
  • Hvað getur gerst þegar ég segi ekki hvað mér finnst og geri bara það sem vinur vill?
  • Hvað getur gerst þegar vinurinn gefur alltaf eftir eða segir ekki sína skoðun.
  • Hvað græðum við á því að vera snjöll í að finna milliveginn?
  • Hvernig getur það hjálpað okkur annars staðar í lífinu að kunna að semja?