Gögn: Skriffæri, blöð.
Markmið: Skapandi og gagnrýnin hugsun. Að spyrja heimspekilega.

Lýsing:

Í þessari æfingu taka þátttakendur sér góðan tíma til að semja sínar eigin „hvað ef?“ spurningar. Tekinn er góður tími, a.m.k 30 mínútur, og semja þátttakendur eins margar spurningar og þeir geta á þeim tíma sem varið er til verksins. Allar spurningarnar eiga að byrja á orðunum „hvað ef ...“.

Reynslan er sú að oft eiga þátttakendur erfitt með að byrja en ef leiðbeinandi lætur það ekki á sig fá og gefur tíma í verkið þá komast þátttakendur oftar en ekki á flug. Sjálfsagt er að leyfa þeim að bera saman bækur sínar og deila spurningum sínum í þessari vinnu þar sem ein hugmynd verður oft til þess að önnur kviknar.