Verkefni fyrir foreldra

Seigla (e. resilience) er hugtak sem er notað yfir innri styrkleika eða þrautseigju sem finnst hjá þeim börnum og fullorðnum sem tekst að láta ekki erfiðleika í lífinu buga sig. Til þess að byggja upp seiglu hjá börnum er mikilvægt að grípa ekki alltaf fram fyrir hendurnar á þeim þegar erfiðleikar steðja að. Við viljum undirbúa börnin okkar fyrir áskoranir lífsins. Reyndu að hugsa um aðstæður þar sem þú ert mögulega að taka ábyrgð af barninu sem það getur samt alveg valdið. Það er allt í lagi þó það geri mistök og nái ekki alveg tökum á viðeigandi atriði strax. Mikilvægt er að velja góð atriði til að æfa sem viðeigandi eru fyrir hvern aldur. Hér að neðan eru nokkur dæmi.

Dæmi um atriði sem þjálfa seiglu:

 • Skráðu barnið þitt á námskeið í einhverju sem það hefur aldrei prófað áður. Ekki vera of snögg/ur að grípa inní þó að barnið verði stressað eða kvíðið, prófaðu að sýna því skilning, deila eigin reynslu í svipuðum aðstæðum og hvettu barnið til að prófa, a.m.k. einu sinni.
 • Haldið regluleg borðspilakvöld og ekki leyfa barninu að vinna, leyfðu því að takast á við að vinna eða tapa eftir eigin frammistöðu. Kenndu því flóknari spil með auknum aldri og þroska.
 • Kenndu barninu þínu að tefla.
 • Láttu barnið rækta samræðuhæfni við fullorðna, t.d. við ömmu og afa eða frænkur og frændur.
 • Ekki tala sjálfkrafa við alla kennara og þjálfara fyrir hönd barnsins.
  • Láttu barnið tala sjálft við afgreiðslufólk, t.d. í bakaríi, ísbúð, á veitingastöðum eða í sundi
  • Kenndu barninu þínu að nota strætó og láttu það taka strætó, að minnsta kosti af og til.
 • Ef barnið þitt hefur notað strætó, stingdu uppá að það taki strætó á nýjan stað og finni leiðina sjálft í appinu (fyrir eldri börn um það bil 12-13 ára og uppúr).
 • Spurðu fyrst, “hvað dettur þér í hug” og haltu aftur af þér með að leysa úr vandamálum fyrir hönd barnsins þín.
 • Gerðu kröfu á að barnið þitt haldi reglu á herberginu sínu, læri að þvo þvott og elda mat heima við.
 • Leyfðu barninu þínu að gera tilraunir í eldhúsinu.
 • Láttu barnið þitt í einhverja skipulagða tómstund. Íþróttir, skák, kór, tónlistarnám, skólahljómsveit, skátarnir o.s.frv. Skipulagðar tómstundir krefast ábyrgðar, kenna börnum nýja færni, gefa þeim tækifæri til að eignast vini utan skólans o.m.fl.
 • Hafðu reglu á háttatíma barnsins og kenndu því að fara upp í rúm án síma eða tölvu.
 • Kenndu barninu þínu að sjá tækifæri í breyttum aðstæðum, til dæmis ef það er ekki valið í besta liðið í fótbolta, þá gæti það verið tækifæri til að spila lykilhlutverk í B liðinu eða spila með besta vininum.