Ekki er óalgengt í dag að börn og unglingar upplifi hluta líkama síns sem eitthvað sem nauðsynlega þarf að breyta, laga og hylja. Ímyndir á samfélagsmiðlum og YouYube ýta mikið undir þennan hugsunarhátt.

Oft á þetta við um atriði sem ekki er hægt að breyta eins og freknur, fæðingabletti, lögun nefs og augna, ákveðinn vöxt, beinabyggingu osfrv. Í þessu verkefni er sérstaklega tekið á þessu og opnað á þá umræðu að sáttinn sé betri en gagnrýnin. Erfitt er að finna löngun til að hugsa vel um líkama sinn ef gagnrýnin er viðvarandi. Þeir fullorðnu sem gagnrýna líkama sinn oft tala margir um að hafa byrjað á því sem börn eða unglingar. Þessir einstaklingar eru ólíklegri en aðrir til að hugsa vel um sig seinna meir eins og að hreyfa sig reglulega, borða næringarríkan mat og svo framvegis. Það er því mikilvægt að freista þess að minnka þessa gagnrýni á uppvaxtarárunum. Ef við upplifum meiri sátt við líkamann þá ómar gagnrýnisröddin minna í huga okkar.

Leiðbeiningar:

Þetta verkefni snýst fyrst og fremst um samtal við foreldrið (eða fagaðila) um líkamann og útlitið og þá uppgötvun að kannski þarf engu að breyta.

Við notum myndband til að aðstoða við samtalið sjálft. Það er hér að neðan. Sestu niður með barninu og talaðu um það sem rætt er hér að ofan. Útskýrðu aðeins um hvað þetta snýst og taktu dæmi. Foreldrar geta til dæmis tekið dæmi af sjálfum sér.  Hvernig þeir hafa farið í gegnum þetta ferli sjálf, verið mjög ósátt með t.d. freknurnar, reynt ýmislegt til að losna við þær eða hylja en að lokum fundið sátt og stolt. Lært að standa með sér. Ekki taka of langan tíma í þetta samtal en opnið það aðeins áður en horft er á myndbandið. Eftir myndbandið er hins vegar góður tími í lengra spjall, fleiri dæmi og setja fókusinn á barnið sjálft. Þegar foreldrar segja sögur af sjálfum sér verður þessi vegferð – frá gagnrýni yfir í sátt – raunverulegri. Þeirra eigin skilningur eykst og sjálfsmyndin styrkist.

Gott er að horfa á myndbandið nokkrum sinnum á meðan á samtalinu stendur. Það er hratt, margar klippingar en skilaboðin skýr.

Einnig er gott að ræða líka um verndandi hegðun og mikilvægi þess að hugsa vel um líkamann. Við þurfum að sýna honum vernd, til dæmis með skemmtilegri, reglulegri hreyfingu, fjölbreyttri næringu, nægum svefn og áhrifaríkri streitustjórnun. Það er mikilvægara að hafa áhersluna þar en að reyna að breyta því sem ekki verður breytt eða ekki þarf að breyta.

Kennarar og aðrir sem gera verkefnið í hópi: Hægt er að hafa verkefnið eingöngu samstalsverkefni en einnig er hægt að láta þau skrifa niður dæmi sem tengjast þeim sjálfum. Þá er gott að láta þau gera verkefnið í einrúmi á blaði og bjóða svo þeim að deila sem vilja.

Dæmi um umræðupunkta eftir að horft hefur verið á myndbandið:

  • Er eitthvað sem þú vilt breyta hvað útlit þitt eða líkama varðar?
  • Ef þú hugsar málið vandlega og ert einlæg/ur við sjálfa/n þig, hvað af því er ekki hægt að breyta eða þarf ekki að breyta?
  • Finnst þér erfitt að hugsa um líkama þinn og útlit á þann hátt að mögulega þarf ekki að breyta þessum atriðum sem þú nefndir?
  • Fylgir því einhver léttir að mega finna sátt við það sem ekki þarf að breyta? Ef þér finnst það erfitt ertu tilbúin til að æfa þig samt?
  • Er einhver verndandi hegðun sem þú ættir frekar að leggja áherslu á heldur en fyrirætlanir um að breyta líkamanum eða útlitinu á einhvern hátt?

Myndband: „Your Body in Normal":

Það er líka hægt að horfa á myndbandið hér á Facebook.