Umræðuverkefni

Áhrif samfélagsmiðla á sjálfsmynd og sérstaklega líkamsímynd eru talin vera nokkuð mikil. Samfélagsmiðlar verða til sem forrit sem eiga að bæta tengsl einstaklinga og gera það oft ágætlega. Við höldum betri tengslum við vini erlendis og deilum með öðrum gleðilegum atburðum í lífi okkar. En samfélagsmiðlar stuðla hins vegar að ósanngjörnum samanburði. Sífellt yngri börn fá aðgang að samfélagsmiðlum þar sem margt snýst um að birta ritskoðaða mynd af því hver við erum. Börn og unglingar eru viðkvæmari fyrir þessum áhrifum en fullorðnir. Þau átta sig síður á ritskoðuninni sem á sér stað. Vandinn snýst nefnilega um þessa tilbúnu, ritskoðuðu mynd. Við erum ekki lengur eingöngu að kljást við breyttar, ritskoðaðar myndir í fjölmiðlum heldur getur hver sem er breytt myndum á eigin síma.

Við erum svo líka að kljást við áhrifavalda sem margir leikstýra eigin lífi í þeim tilgangi að koma ákveðnum myndum og myndböndum á samfélagsmiðla. Þar virðast allir lifa spennandi áhugaverðu lífi þar sem hversdagslífið er víðs fjarri. Samanburðurinn fer því líka að snúast um hvernig lífi við erum að lifa - ekki bara hvernig við lítum út á myndum. Við verðum þannig ansi upptekin af því hvað öðrum finnst um okkur - en á samfélagsmiðlum stýrum við því algjörlega hvað við sýnum og hvað ekki.  Þegar þetta gerist erum við ekki lengur að deila skemmtilegum myndum og atburðum úr lífi okkar með þeim sem okkur þykir vænt um. Við erum farin að bera okkur of mikið saman við aðra og gagnrýna okkur fyrir að mæta ekki væntingunum.

Í þessu verkefni ætlum við að skoða myndband sem sýnir þetta ágætlega og ræða svo vel.

„Are You Living an Insta Lie? Social Media Vs. Reality”

Umræðupunktar:

Samanburður er í eðli sínu neikvæður. Við ómeðvitað ýkjum jákvæða kostinn hjá einstaklingnum og um leið ýkjum við það neikvæða hjá okkur svo að myndast skekkja. Þessi skekkja verður sérstaklega mikil þegar við erum í samanburði við myndir, t.d. á Instagram.

  • Er samanburður sanngjarn?
  • Hvenær ertu helst að bera þig saman við aðra?
  • Hvernig líður þér við samanburð?
  • Hvað finnst þér um útlitslegan samanburð?
  • Afhverju ætli fólkið í myndbandinu hafi sett myndir af því “fullkomna” en ekki því hversdagslega?
  • Hvað reynum við að sýna á samfélagsmiðlum og hvers vegna?
  • Endurspegla samfélagsmiðlar raunveruleikann?
  • Hefur einhver sett mynd af þér á samfélagsmiðla sem þér fannst ekki nægilega góð? Hvað fannst þér um það? Hvernig gætir þú reynt að bregðast við því á jákvæðan hátt?