Unglingsárin geta verið tími mikilla breytinga þegar kemur að félagahópnum.  Bekkir breytast oft á tíðum, áhugamál breytast og nýjir krakkar koma til sögunnar.  Það skiptir meira máli en nokkru sinni að falla í hópinn og skera sig ekki úr.  Allt þetta getur verið krefjandi fyrir marga unglinga að takast á við.  Samfélagsmiðlanotkun gerir þetta svo oft enn erfiðara nú á dögum, eitthvað sem margir foreldrar í dag þurftu ekki að takast á við í sinni æsku.

Oft á tíðum getur það skapað vanlíðan ef unglingnum tekst ekki að slaka nægilega á í samskiptum við jafnaldra.  Dæmi um slíkt er að vilja láta sem minnst á sér bera í skólanum, forðast augnsamband, hafa miklar áhyggjur af því að segja eitthvað vitlaust, hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mann og svo framvegis.  Algengt er að unglingar verði sjálfsmeðvitaðir og geta þurft stuðning til að sá vandi verði ekki að vítahring.

Ef unglingurinn upplifir mikið af svona líðan og er jafnvel farið að forðast aðstæður í miklum mæli gæti þurft að ræða við fagaðila og meta stöðuna betur - sjá hvort um félagskvíða er að ræða sem þarf þá sérstakrar meðhöndlunar við.

Ef unglingurinn upplifir spennu og streitu í félagslegum aðstæðum þá getur verið hjálplegt fyrsta skref að æfa meiri slökun og minnka spennu í líkamanum.  Þegar við erum ekki að slaka á í félagslegum aðstæðum öndum við grunnt, spennum vöðva og erum á verði (auga í hnakkanum að fylgjast með öllu sem fram fer).  Þá aukast líkur á að við mistúlkum aðstæður og festumst í óhjálplegum hugsunum um okkur sjálf og aðra.  Þegar okkur líður svona þá náum við síður góðri tengingu við annað fólk.  Öðrum getur til dæmis fundist við vera fjarlæg og jafnvel köld - og fjarlægst okkur.

Í þessu verkefni einblínum við á mikilvægi þess að reyna að brjóta þennan vítahring með að slaka meira á.  Það er fyrsta skrefið.  Þetta er hægt að æfa án þess að aðrir taki eftir því og án þess að þurfa að breyta miklu öðru.  Ræddu við barnið almennt um öndun og slökun á líkamanum.  Byrjið á að æfa slökun heima og svo er hægt að færa slík viðbrögð inn í félagslegar aðstæður.  Skoðaðu appið okkar “Sterkari út í lífið” en þar eru öflugar æfingar til að æfa sig í að slaka á.  Hægt er að setja appið upp í síma barnsins.  Einnig eru myndbönd hér að neðan sem hægt er að æfa sig út frá.

Hægt er að byggja á þessum skrefum:

Öndun - grunnurinn að allri slökun og jarðtengingu.

Færðu athyglina að önduninni og fylgstu aðeins með henni.  Prófaðu að draga djúpt andann inn í gegnum nefið og svo rólega út aftur.   Endurtaktu nokkrum sinnum.  Ekki reyna að stýra önduninni um of - fylgstu með og sjáðu hvort þú náir góðum, rólegum andardrætti með hægum takti.

Núvitund - færa athygli út á við.

Prófaðu að taka betur eftir umhverfinu í stað þess að vera með hugann við eigin viðbrögð og hugsanir.  Færðu athyglina út á við.  Taktu bara eftir því sem er að gerast.  Taktu til dæmis eftir einhverju hlutlausu, einhverju fallegu, hvað aðrir eru að segja, hvernig liturinn á fötunum þeirra er og svo framvegis.  Mundu að þú berð ekki alla ábyrgð á samskiptunum.

Slaka á vöðvum - minnka spennu.

Skannaðu líkamann og reyndu að taka eftir því hvort einhverjir vöðvahópar séu spennir án þess að þurfa að vera það.  Til dæmis vöðvar í herðum, kjálka, rassi, lærum og tám.  Prófaðu að slaka aðeins á þessum vöðvum.  Gott er að passa að öndunin fylgi með.

Viðhorf:  Hlýja - skilningur og sanngirni

Reyndu að sjá sjálfan þig og aðra í samkenndarljósi.  Ef þú upplifir óöryggi í félagslegum samskiptum getur verið að þú sért að horfa á sjálfan þig og aðra með of mikilli dómhörku.  Gott getur verið að minnka þessa dómhörku með einföldum en öflugum samkenndaræfingum - þá æfir þú þig í að sjá sjálfan þig og aðra á sanngjarnari hátt og með meiri mildi.  Þú ert að gera þitt besta og markmiðið er að þora að vera mannlegur og ófullkominn einstaklingur.

Sérstök verkfærakista um samkennd er hér á vefsíðunni og í appinu okkar.  Veldu alla vega eina og æfðu í nokkrar vikur.

 

Ofangreint aðstoðar okkur að æfa aðrar aðferðir sem gætu verið hjálplegar.  Til dæmis er gagnlegt að skoða hvaða óhjálpleg viðhorf og hugsanir.  Með óhjálplegum viðhorfum er átt við sýn á sjálfan sig og heiminn sem ekki eru á rökum reistar.  Dæmi um slík viðhorf geta verið “það líkar engum við mig” - “allt sem ég geri er asnalegt”.  Næsta skref er að læra að takast á við viðhorf og hugsanir með öðrum hætti.  Sjá verkfærakistu:  Hugsanir og tilfinningar.

Hér eru myndbönd með einföldum öndunaræfingum:

https://youtu.be/QrjRsmHSSc8?si=AWB-AoNUakGhm4du

https://youtu.be/ZK_ZZt0EOg8?si=K0gc_pI8yaosWBMG

https://youtu.be/tEmt1Znux58?si=Enf1-UroPI_MRoEa

Einfalt myndband um núvitund og hlustun:

https://youtu.be/wfExlzLp3dA?si=2kBXB4ChVkHa3sd2

Hér er myndband sem kennir gagnlega leið til að finna ró. 
Hægt er að nota þessa æfingar til dæmis þegar þú ert á leið í félagslegar aðstæður sem þér finnast vera erfiðar

https://youtu.be/EfubAj5f_rM?si=puvcO2I6C2tqRONq

Hér eru upplýsingar um Sterkari út í lífið appið og hvernig maður sækir það