Öll getum við haft áhrif á líf okkar. Við gerum það til dæmis með því að taka meðvitaðar og viljastýrðar ákvarðanir og stýrum þannig lífi okkar í ákveðnar áttir. Viðhorf okkar til lífsins ræðst meðal annars af því hvort við tökum á því sem kemur upp í lífinu með þessum hætti. Auðvitað koma upp aðstæður reglulega sem við ráðum ekki við. Lífið getur verið óútreiknanlegt. Þá skiptir miklu að eiga gott stuðningsnet, eins og samfélagslegt stuðningsnet, fjölskyldubönd og vináttu. En mikilvægt er að halda eigin frumkvæði á lofti og æfa með hvaða hætti við höfum áhrif á eigið líf.

Leiðbeiningar:

Í þessari einföldu æfingu hvetjum við barnið til að hugsa aðeins um daginn sem er framundan og ákveða hvaða gildi það ætlar að hafa í huga í dag. Það er ómögulegt að muna þetta alla daga en gaman að prófa öðru hvoru. Það er mikilvægt að kenna barninu að það hefur meiri stjórn á eigin líðan en það oft heldur.

Það getur verið mjög árangursríkt ef foreldrar gera æfinguna með barninu og miði þá við sitt eigið líf.

Verkefni: Taktu meðvitaða ákvörðun um daginn í dag.

Áður en þú heldur af stað út í daginn skalt þú ákveða hvernig dag þú vilt eiga. Margir vilja undrbúa þetta í rólegheitunum kvöldið á undan og er það í góðu lagi.

 • Hvernig dag viltu eiga í dag?
 • Hvað vilt þú gera?
 • Er eitthvað hjálplegt sjálfstal sem þú vilt hafa í huga í dag? Hægt er að skrifa það niður á miða og hafa í vasanum. Sjá verkfærakistu um hjálplegt sjálfstal.
 • Ef barnið vann verkefnið um gildi er hægt að bæta við: Hvaða gildi ætlar þú að leggja áherslu á í dag?

Um kvöldið er hægt að skoða svo þennan lista:

Prófaðu að ljúka eftirfarandi setningum:

 • Í dag naut ég þess að ...
 • Í dag fannst mér gaman að ...
 • Þrennt sem gekk vel í dag, það var...
 • Ég er ánægðust/astur þegar …
 • Ég er öðruvísi en aðrir af því að…
 • Minn helsti styrkleiki er ...
 • Mér líður best þegar ...
 • Þrjú atriði sem ég er þakklát/ur fyrir ...
 • Helsta afrek mitt í dag var ...
 • Mér finnst ég vera sterk/ur þegar ...