Börn sem bregðast of kröftuglega við þegar eitthvað kemur upp í samskiptum við vini þurfa oft aðstoð til að komast út úr slíkum viðbrögðum.
Mikilvægt er að byrja á að reyna að skilja hvað er á bak við þessi tíðu rifrildi – hvers konar samskipti eru helst að ýta undir svona viðbrögð hjá barninu þínu?

Misskilningur:

Ef þér finnst barnið þitt vera að misskilja oft aðstæður og samskipti, til dæmis að túlka slíkt sem höfnun þegar er ekki höfnum þarf að fara inn í það og grípa eins mörg slíkar uppákomur og ræða. Gott er að skipta þá samtalinu í tvennt – hvað er barnið þitt mögulega að misskilja og hvað er það ekki að misskilja. Þá kennum við börnum að eitthvað getur verið óljóst eða óþægilegt í aðstæðum án þess að það þýði að það sé verið að koma illa fram við það. Ef barnið þitt æfir sig í að meta stöðuna réttar þá verða viðbrögðin kannski ekki eins hröð og harkaleg. Svona æfingar geta tekið nokkurn tíma áður en árangur fer að koma í ljós.

Æfa breytt viðbrögð:

Svo er hægt að ræða breytt viðbrögð – hvað getur þú gert sem minnkar líkur á að allt endi í rifrildi en samt staðið með þér? Oft er svarið að vinir læri að gefa hvort öðru rými. Rannsóknir virðast sýna að börn þurfa oft að leysa rifrildi með því að gefa vináttunni smá pásu. Þá taka þau smá pásu á hvort öðru og koma svo aftur saman – og æfa sig þá að vanda sig – vera góð og almennileg við hvort annað. Stundum þarf ekki að kryfja allt til mergjar. Einnig er hægt að skoða og nota aðferðir í verkefninu Leysum ágreining.

Oft leysa þau þessar erjur á þennan hátt sjálf í gegnum leikinn – án þess að fullorðnir þurfi að koma að. Þessir fullorðnu þurfa þá samt að fylgjast með en skoða hvenær þarf að grípa inn í og hvenær ekki. Við grípum inn í þegar við sjáum eitthvað vera að gerast endurtekið. Það er í vináttunni (og erjunum sem fylgja) sem þau læra svo mikið á sig sjálf og aðra. Ef við sjáum barnið okkar leika við barn sem við sjáum sem „hræðilegt barn“ þá getur það verið fyrsta viðbragð að stökkva inn eins og ljónamamma eða pabbi og bjarga barninu frá þessu hræðilega barni -en það er kannski ekki nauðsynlegt nema barnið þitt sé í mikilli hættu. Einnig þarf að muna að þetta „hræðilega barn“ er líka barn. Betra er að sjá hvernig barnið þitt tekst á við hitt barnið og stökkva ekki inn nema þess nauðsynlega þurfi.

Annað – þegar þú skoðar hvernig barnið þitt er í félagslegum samskiptum skaltu reyna að sjá tilfinningar þess sem einhvers konar leiðsögukerfi – það er hlutverk tilfinninga að gefa okkur upplýsingar sem þarf svo að vinna úr. Ef barninu þínu líður alltaf illa eftir að hafa leikið við ákveðin vin eða hóp þá þarf að skoða þá líðan betur og nýta upplýsingarnar sem þannig fást til að gera plan fram á veginn.

Að lokum – það sem foreldrum finnst oftast erfiðast við svona aðstæður er að horfast í augu við að hegðun eigin barns er ekki alltaf upp á 10 – ekkert barn getur alltaf verið með hegðun upp á 10 í svona aðstæðum – sem betur fer - þannig læra þau á samskipti. En ef skilaboð frá foreldrum eru reglulega þau að það er alltaf hinn sem er vandamálið þá lærir barnið að hugsa þannig sem fullorðin manneskja. Ef þú ert að takast á við foreldri sem fer auðveldlega í of mikla vörn fyrir eigið barn þá getur verið gott að koma því að snemma í samtalinu hvar þitt barn þarf að æfa sig – þá opnast stundum fyrir að hitt foreldrið geti átt samtalið á sömu nótum og hægt er að tala sig niður á góða lausn til að æfa.

 

Byggt að hluta á grein eftir barnasálfræðinginn Phyllis L. Fagell.