Styrking líkamsmyndar felst að hluta í því að horfa á hann í víðara samhengi, ekki bara einblína á ytra útlit. Í stað þess að horfa á hann að mestu út frá því hvernig hann lítur út þá skoðum við frekar hvað hann getur gert. Börn sem geta horft á líkama sinn í þessu víðara samhengi þróa með sér heilbrigðari líkamsmynd en börn sem meta hann eingöngu út frá útlitslegum kröfum.  Teiknimyndirnar hér að neðan minna okkur á hver starfssemi líkamans er víðfeng og merkileg.  Við gleymum því oft þegar einblínum á ytra útlit hans.  Horfðu á þær með barninu, hægt er að velja eina og eina og taka smá tíma í að vinna þetta verkefni - þess vegna nokkra daga.  Neðst eru svo umræðupunktar og spurningar sem gott er að fara yfir.

Öndunin er svo mikilvæg:

Tennur og munnur - nauðsynlegt að þvo hendur:

Meltingin, hvað gerist þegar við borðum?

Við þurfum fjölbreytta fæðu - Góð flókin kolvetni fyrir heilann, fitu fyrir orku og vernd líffæra og prótein fyrir uppbyggingu vöðva, beina og húðarinnar.

 

Hvað gerist þegar við skerum okkur?

Þessar teiknimyndir eru gamlar en standa vel fyrir sínu.  Þær eru einstaklega gagnlegar þegar við viljum kenna börnum að huga að líkamanum í heild sinni, meta hann og það sem hann gerir fyrir okkur á hverjum degi.

Sestu nú niður með barninu og ræðið saman teiknimyndina.  Þar sem hún er á ensku þarf að útskýra gang mála á meðan þið horfið á myndina.  Ræðið hana t,d í samhengi við síðustu skipti sem barnið var með maga- eða kvefpest eða skar sig:

  1. Skoðið hvernig líkami þeirra tókst á við það á svipaðan hátt.
  2. Reynið að giska á hvað líkaminn gerði til að laga ástandið og hvað þið gerðuð til að hjálpa honum (hvíld, vitamín, betri næring, hitta lækni).
  3. Finnið svo blað og penna og byrjið að skrifa niður allt sem ykkur dettur í hug varðandi það hvað líkaminn gerir daglega fyrir okkur (eitt blað fyrir barnið og annað fyrir þig).
  4. Ræðið hvað hægt er að gera til að hjálpa líkamanum að vinna starf sitt. Sofa vel, drekka nóg vatn, borða næringarríkan fjölbreyttan mat og hreyfa sig reglulega.

Það getur auðveldað samtalið með því að skoða þennan lista og svara spurningunum þar fyrir neðan:

  • Fæturnir - Bera mig með vöðvunum og hjálpa mér að halda jafnvægi.
  • Hnén - Hjálpa mér að vera sveigjanleg/ur. Ég get beygt mig. Þau standast álag og eru alltaf að aðlagast því hvernig ég stend og á hverju ég stend.
  • Mjaðmir - hjálpa mér að halda jafnvægi og að halda þyngdarpunktinum stöðugum.
  • Maginn - Innri líffæri sem ég spái lítið í en eru svo mikilvæg, meltingin, þvagblaðran og þarmarnir.
  • Bringan - Þar eru hjartað og lungun og rifbeinin sem verja þessi mikilvægu líffæri.
  • Bakið - Þar er mænan sem passar upp á taugakerfið og sér til þess að ég geti gengið og hreyft mig.
  • Handleggir - Þar eru vöðvar sem hjálpa mér að ná í hluti, faðma fólk, halda jafnvægi, skrifa og tjá mig.
  • Hálsinn - Hjálpar mér að anda, nota röddina, borða og kyngja, snúa höfðinu og sjá í kringum mig.
  • Andlitið - Þar býr tjáningin mín. Það hjálpar mér að tengjast öðru fólki og tjá hvernig mér líður.
  • Höfuðið - Heimili skynfæranna- sjálfur heilinn býr þar. Þar tengist allt saman og þar er stjórnstöðin.

Svarið nú þessum spurningum:

  • Hvað gerði líkaminn fyrir ykkur í dag?
  • Hvað gerði hann fyrir ykkur í nótt?
  • Hvað gerði hann fyrir ykkur í síðasta fríi?
  • Hvað gerði hann fyrir ykkur í tómstundum í síðustu viku?
  • O.s.frv.

Ákveðið að ræða þetta aftur eftir nokkra daga og fylgjast með honum í millitíðinni.

Einnig er hægt að festa blað upp á vegg einhversstaðar á heimilinu og taka 10 mínútur eftir kvöldmat og skrifa niður ný atriði sem uppgötvuðust þann daginn.