„Hvað ef?“
Gögn: Spurningar sem byrja á orðunum „hvað ef ...?“
Markmið: Að efla ímyndunarafl og setja sig í annars konar aðstæður en eru vanalegar.
Lýsing:
Í þessari æfingu leika spurningar sem byrja á orðunum „hvað ef?“ lykilhlutverk. Þegar þeim er svarað skal leggja áherslu á að svara því hvernig eitthvað væri eins nákvæmlega og mögulegt er í stað þess að svara á einfaldan hátt eins og stundum er tilhneiging til að gera. Dæmi um slíka einföldun er: Hvað ef allir væru frægir? Svar: Þá væru allir frægir. Rannsóknarferlið við þessar spurningar felur í sér eftirfarandi þætti:
-
- Spurningu svarað eins nákvæmlega og mögulegt er.
- Hvaða vandamál blasa við?
- Hvernig mætti leysa þau vandamál sem upp kæmu?
- Er eitthvað sem yrði betra en nú er?
Dæmi um spurningar sem má nota:
- Hvað ef einhverjum hefði einhvern tíma tekist að stoppa tímann?
- Hvað ef allir væru frægir? Hvað ef allir töluðu sama tungumálið?
- Hvað ef maður myndi hugsa eins og einhver annar?
- Hvað ef það væri ekki skólaskylda á Íslandi?
- Hvað ef menn gætu lesið hugsanir?
- Hvað ef allir væru blindir?
- Hvað ef það væri ekki til rafmagn?
- Hvað ef við værum heilar í krukku?
- Hvað ef menn gætu ekki hugsað?
- Hvað ef nöfn allra væru tölur?
- Hvað ef maður gæti gert hvað sem er án þess að meiða sig?
- Hvað ef það væri bara til einn sími í hverju landi?
- Hvað ef það væru engir menn?
- Hvað ef það væru ekki til tölur?
- Hvað ef lífið væri draumur?
- Hvað ef allir væru heyrnarlausir?
- Hvað ef það væri ekki til ást?
- Hvað ef það væru engar reglur?
- Hvað ef við vissum ekki um fortíðina?
- Hvað ef allt væri ókeypis?
- Hvað ef allir væru eins?
- Hvað ef karlar gætu orðið óléttir?
- Hvað ef tímaflakk væri mögulegt?
- Hvað ef enginn gæti dáið?
- Hvað ef allir myndu heita það sama?
- Hvað ef líf okkar væri bara sjónvarpsþáttur í öðrum heimi?
- Hvað ef allir væru ósýnilegir?
- Hvað ef það væri ekki til sjónvarp?
- Hvað ef í hvert skipti sem þú kveiktir á sjónvarpi myndi manneskja deyja?
- Hvað ef það yrði heimsendir á morgun?
- Hvað ef það væri ekki hægt að ljúga?
- Hvað ef þú gætir bara sagt eitt orð á dag?
- Hvað ef það væru engin stríð?
- Hvað ef kennarar væru vélmenni?
- Hvað ef menn væru með þrjár hendur?
- Hvað ef allir myndu alltaf ljúga?
- Hvað ef fingur okkar væru tær og tær okkar fingur?