Í þessu verkefni reynum við að koma upp um hugsanavillur sem ýta undir neikvæða líkamsmynd. Gott er að lesa þessa grein fyrst til að skilja þetta betur og/eða skoða æfingar um líkamsmynd í verkfærakistunni: Líkamsímynd-grunnstig,  Líkamsímynd-miðstigLíkamsímynd-unglingastig.

Farðu vel yfir neðangreindar hugsanavillur með unglingnum og hjálpaðu honum að meta hvort og hvenær það hefur dottið inn í þær. Reyndu þó fyrst að meta það hjá þér sjálfri/sjálfum. Eigðu samtal við barnið um þær gildrur sem þessar hugsanir leiða okkur í.

Hugsanaskráin hér að neðan hjálpar svo til við að átta sig betur á því hvenær þetta gerist og búa til mótrök sem minnka áhrif þessara hugsana og styrkja þar með líkamsímyndina.

Sjö algengar hugsanavillur sem hafa áhrif á líkamsmynd og sjálfsmynd

  1. Allt- eða ekkert hugsun:  „Annaðhvort er ég eins og ég vil vera eða ég er ótrúlega illa vaxin. Annaðhvort er ég fullkomin eða ljót. Ekkert þarna á milli. Ég er ömurleg manneskja af því að ég borðaði ekki nógu hollan mat í dag”.
  2. Óraunhæfur samanburður:  Ég ber sjálfa mig saman við þá sem ég tel fullkomna. Ég gleymi stundum hvernig myndum er breytt í tölvu en það er gert mun oftar en við höldum.
  3. Stækkunarglerið:  Ég einblíni á það sem mér líkar minnst við og set það undir stækkunargler. Læt þetta vera það eina sem skilgreinir mig sem manneskju og hundsa um leið allt það jákvæða. Dæmi: Manneskjan er með mjög fín læri (stór eða ekki) en hún ýkir það upp að þau séu svo ljót því hún hugsar of mikið um þau og einblínir í sífellu á þau.
  4. Gagnrýnandinn:  Ég gagnrýni eitthvað eitt útlitslegt og mjög hratt vindur það upp á sig og áður en ég veit af er ég farin að gagnrýna margt annað við mig sjálfa. Mér finnst ég vera ömurlegur. Ég geng jafnvel enn lengra og tengi allt sem mér finnst ekki vera að ganga vel í lífinu við “að vera svo ljótur”.
  5. Hugsanalestur:  Ég ákveð að allir aðrir sjái mig á sama hátt og ég sé sjálfan mig. Ég ert þá að lesa hugsanir þeirra og ákveð að aðrir meti mig á neikvæðan hátt. “Mér finnst erfitt að ímynda mér að á degi þar sem mér finnst ég líta hræðilega út finnist öðrum ég vera aðlaðandi”. “Það taka allir eftir því hvað ég er með stóra bólu á hökunni og eru að hugsa um hvað ég er ógeðslegur”.
  6. Ofurupptekin af útliti - alhæfing: Ég trúi því að ég geti ekki gert ákveðna hluti vegna þess að mér finnist ég ekki líta nægilega vel út. Ég upplifir mig þá vera minna virði en annað fólk. Ég sleppi því t.d. að gera hluti sem mig langar að gera og hitta fólk sem mig langar að hitta. “Ég er of feit og asnaleg til að geta verið í þessum fötum, ég get ekki mætt í þetta partý”.
  7. “Ljótutilfinning”:  Þegar mér “líður” eins og ég sé ljót þá er það eini sannleikurinn sem ég samþykki. Það skilgreinir þá allt lífið. Þegar þetta gerist er erfitt að sjá að þetta er bara tilfinning sem líður hjá - ekki staðreynd.