Hvað er hugrekki? Hugrekki er að mæta og þola við í óþægilegum aðstæðum eða mæta því sem er kvíðavaldandi. Hugrekki eflir sjálfsmyndina með því að takast á við ýmis verkefni í gegnum lífið sem geta verið miserfið og óvissa er með hvernig þau fara. Að gera hlutina þó maður sé hræddur. Hugrekki hjálpar okkur líka við að sjá styrkleika okkar.

Hugrekki er ekki endilega meðfæddur eiginleiki heldur frekar færni sem þjálfast upp þegar aðstæður og tækifæri eru til staðar. Foreldrar geta því stutt við barnið sitt og aðstoðað það við að æfa sig þegar tækifæri gefast og skapa aðstæður til að æfa þessa færni. Þetta verkefni getur nýst við að styðja og skapa slíkar aðstæður. Það er líklegt að barnið þitt sýni einhverskonar hugrekki nánast daglega - en taki jafnvel ekki eftir því. Með því að nota svona verkefni markvisst í til dæmis nokkra daga í viku eða eina viku samfellt annars slagið þá beinum við vasaljósi að þessum mikilvægu augnablikum og leyfum þeim þá að vera efniviður fyrir sterkari sjálfsmynd. 

Leiðbeiningar: Gott er að eiga samtal við barnið um hugrekki, hvað það er og hvenær barnið hefur sýnt hugrekki. Dæmi um hugrekki er að mæta í skólann fyrsta skóladaginn þrátt fyrir kvíða og óvissu. Eða fara í stóru rennibrautina. Þetta geta verið lítil og stór verkefni sem reyna á.  Stundum getur verið gott að foreldrar segi dæmi frá sjálfum sér.  Náið svo í bók heima eða gerið skemmtilega ferð í búðina þar sem barnið velur bókina sem það vill skrifa niður atvik þar sem það sýndi hugrekki. Með því að skrifa niður þessi atvik og ræða þau þá erum við að styrkja sjálfsmyndina. Gott er að hafa bókina litla svo hægt sé að taka hana með inn í daginn. Farið svo saman yfir bókina í rólegheitum og leyfið barninu að eiga heiðurinn af að hafa gert hluti þrátt fyrir að vera stressað. Einnig er hægt að nota meðfylgjandi skjal og merkja inn eftir þörfum.

Dæmi um umræðuspurningar þegar þið ræðið um hugrekki:

Hvað er hugrekki?

Hvað hefur þú forðast eða fundist vera óþægilegt eða verið kvíðið við?

Af Hverju er gott að æfa sig í að vera hugrakkur?

Hvað hefur gerist þegar þú hefur prófað að sýna hugrekki?

Hvað lærðir þú af því að sýna hugrekki í þeim aðstæðum?

Hér að neðan er svo hægt að prenta út einfalda en öfluga hugrekkisdagbók.