Það sem skiptir mig máli

Gildi eru orð sem lýsa því sem skiptir okkur máli í lífinu. Orð sem vísa til þess hvernig manneskjur við viljum vera og hvernig við viljum haga okkur í samskiptum við aðra og umhverfið okkar. Gildin vísa til þess sem hefur merkingu fyrir okkur og þess sem okkur þykir vænt um. Þau eru mismunandi fyrir alla og geta breyst hjá okkur frá einum tímapunkti til annars.

Hér að neðan er gott myndband um gildi - við mælum með að foreldrar horfi á það en það er stutt:

Gildi eru öðruvísi en markmið. Markmiðum er hægt að ná en gildi eru meira eins og áttaviti sem við getum fylgt, stefna sem við getum nýtt okkur t.d. til að setja okkur markmið eða taka ákvarðanir í ýmiskonar aðstæðum. Einnig er hægt að nota gildi til að bæta lífsgæðin. Við finnum stefnu í lífinu og okkur líður almennt betur þegar við lifum eftir gildunum okkar.

Ef gildið samviskusemi er okkur t.d mikilvægt þá er það í samræmi við gildið að setja okkur það markmið að mæta alltaf á réttum tíma í skólann en sem ákvörðun í daglegu lífi er t.d. gott að minna sig á gildið þegar er gaman en við vitum að við þurfum að fara heim og klára heimavinnu.

Ef gildið er hugrekki þá getur verið gott markmið að skrá sig í leiklistarklúbbinn og góð ákvörðun að rétta upp hendi þegar við þurfum hjálp í tíma þó svo okkur finnist óþægilegt að aðrir sjái að við kunnum ekki eitthvað.

Stundum þegar okkur líður illa þá er það vegna þess að við höguðum okkur ekki í samræmi við þau gildi sem eru okkur mikilvæg, t.d ef við hreyfum okkur ekki þó við viljum vera hraust eða ef við aðstoðum ekki einhvern sem er í vanda af því við þorum ekki þó við viljum vera hjálpsöm.

Hér er annað gagnlegt myndband:

Verkefni:

Útskýrið hvað gildi eru og notið upplýsingarnar hér að ofan og þau sem eru í myndbandinu. Vinnið svo verkefnið sem er hér að neðan, en það má nálgast á PDF sniði hér að neðan. Munið að gera verkefnið líka sjálf og taka dæmi út ykkar eigin lífi til að barnið skilji þetta betur.