Fyrirmyndirnar okkar
Það styður við sterka sjálfsmynd að velja sér fyrirmyndir í lífinu sem eru í takt við gildin okkar. Oft líta börn upp til frægra einstaklinga og horfa þá mest á útlit þeira eða afrek. Það getur verið gott að útvíkka fyrirmyndirnar með því að leita að fyrirmyndum sem deila sömu gildum og við. Horfa til einstaklinga sem standa fyrir eitthvað sem við viljum standa fyrir, hafa svipaða sýn á lífið.
Fyrirmyndir geta hvatt okkur til dáða en okkur getur líka fundist við ekki standast samanburðinn við þær. Þá þurfum við oft að skoða þær betur og gera þær mannlegri - því öll erum við jú mannleg.
Markmið þessa verkefnis er að skoða fyrirmyndir barnsins. Við byrum á að skrifa niður fyrirmyndirnar en oftast eru þær fleiri en ein. Svo könnum við hvaða eiginleika barnið dáist að í fari fyrirmyndar sinnar og hvernig það telur sig standast samanburðinn. Oft velja börn (og fullorðnir) augljósa eiginleika s.s. líkamsvöxt, útlit, söngrödd eða sérstaka hæfileika (Harry Potter og galdrarnir hans). Ef barnið kemur bara auga á eiginleika sem það á ekki sameiginlega með fyrirmyndinni er markmið æfingarinnar að skoða fyrirmyndina nánar og sjá hvort fyrirmyndin eigi sér ekki fleiri hliðar. Þannig aukum við líkur á að barnið átti sig á því að fyrirmyndir eru líka manneskjur með mannlega kosti og galla sem við deilum jafnvel með þeim. Þá er mikilvægt að biðja barnið um að skoða þá eiginleika sem tengjast gildum sem eru sameiginleg.
Við erum mögulega ekki eins fræg og Lady Gaga en við kunnum kannski líka á hljóðfæri, getum lesið nótur, upplifum tónlist sem mikilvæga í lífi okkar og hlustum mikið á hana. Með því að skoða vel styrkleika fyrirmyndarinnar og brjóta þá niður í smærri atriði þá getum við fundið fleiri eiginleika sem við eigum sameiginlega með okkar fyrirmynd. Messi varð til dæmis ekki góður fótboltamaður á einni nóttu. Hann þurfti að æfa sig, hugsa vel um sig og hlusta á þjálfarann og samherjana.
Verkefnið:
Svarið eftirfarandi spurningum með barninu. Hafið tiltæk blöð og skriffæri og teiknið þetta upp á þann hátt sem ykkur finnst best. Sumir gera dálka á meðan öðrum finnst betra að gera lista. Verkefnið er samtal og þið notið spurningarnar til að aðstoða við það. Það hjálpar oft ef foreldrið talar um eigin fyrirmyndir eða jafnvel þær fyrirmyndir sem það átti í æsku.
Umræðupunktar:
- Hvaða fyrirmyndir áttu?
- Hvaða kosti og styrkleika hefur hún?
- Ígrundaðu vel styrkleikana og brjóttu þá niður í smærri atriði sbr. dæmin hér að ofan.
- Hvaða eiginleika eigið þið sameiginlega? Hvaða gildi í lífinu eigið þið mögulega sameiginleg?