Mannfræðingurinn Anne Becker sem starfar við Harvard háskóla í Bandaríkjunum ákvað að skoða sjálfsmynd og einkum líkamsímynd stúlkna á Fijieyjum áður en sjónvarp kom til eyjanna. Hún hóf rannsóknir sínar árið 1988 og árið 1995 var opnað fyrir sjónvarpsútsendingar. Áður en sjónvarp kom til Fiji voru stelpur þar með sterka og heilbrigða sjálfsmynd og þar þekktust átraskanir ekki.

Eftir að sjónvarpað hafði verið á Fiji í nokkur ár var þetta rannsakað aftur. Þá kom í ljós að breyting hafði orðið á. Fleiri stúlkur voru óöruggar með sig og útlit sitt. Átraskanir voru t.d. orðnar jafn algengar og gengur og gerist á meginlandinu. Líkamsímynd drengja hafði hins vegar ekkert breyst. Erfitt væri að framkvæma svona rannsókn í dag þar sem sjónvarpið er allstaðar en lengi hefur verið litið til þessarar rannsóknar þegar við reynum að meta áhrif fyrirmynda á sjálfsmynd barna okkar. Þessi rannsókn og fjölda margar aðrar hafa ítrekað sýnt að þær ímyndir sem við höfum fyrir augunum alla daga hafa mikil áhrif á það hvernig okkur líður í eigin skinni.

Hér má sjá viðtal við rannsakandann þar sem hún lýsir þessu betur.

Í þessu verkefni reynum við að víkka út sjóndeildarhringinn þegar kemur að fyrirmyndum barna og unglinga. Nauðsynlegt er að ýta undir samtöl um slíkt og freista þess að ýta undir fjölbreytileika. Fyrirmyndir sem stíla inná útlitsaðdáun geta haft neikvæð áhrif á þróun sjálfsmyndar. Það á einkum við um útlit sem fáum tekst að ná, nema með mikilli fyrirhöfn og fórnarkostnaði. Margir átta sig t.d. eðlilega ekki á því að nánast öllum myndum er breytt í tölvu fyrir birtingu, eða eru hreinlega samsettar úr fleiri en einni manneskju. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessu og er einnig sá hópur sem síst áttar sig á þessu. Þau eru þá að bera sig saman við eitthvað sem er ekki raunverulegt.

Notkun barna og unglinga á samfélagsmiðlum og efnisveitum á borð við YouTube er algeng, en þaðan kemur mikið af því efni sem t.d. býr til ósanngjarnar samanburðarhugsanir. Börn og unglingar hafa ekki þroska til að sjá í gegnum þessar ímyndir á sama hátt og fullorðnir geta gert. Því þarf að kenna þeim að gera það.

Verkefnið sem hér fylgir með er hægt að vinna á nokkrum vikum eða jafnvel lengur. Ef barnið þitt hefur einblínt mikið á útlitsmiðaðar fyrirmyndir þá getur tekið tíma að breyta því og finna aðrar. Ekki fara í stríð við barnið þitt ef það vill ekki sleppa þeim. Hjálpaðu því frekar að finna fleti á þeim manneskjum sem snúast um annað en útlit og leggja svo áherslu á að finna fleiri fyrirmyndir sem ekki eru útlitsmiðaðar.

Dæmi:
Ariana Grande er algeng fyrirmynd hjá stelpum í grunnskóla, ein af mörgum. Hún er dæmi um mjög útlitsmiðaða fyrirmynd sem oft er gott að skoða betur. Mikilvægt er að ræða það án þess að gera lítið úr Ariönu Grande. Við viljum auka skilning á því í hvaða heimi hún hrærist í, hvaða væntingar og kröfur eru gerðar til hennar, hvernig útliti hennar er breytt í tölvu o.s.frv. Við spyrjum því, hvað annað einkennir hana en útlitið?

  1. Hverjar eru fyrirmyndir þínar?
  2. Afhverju lítur þú upp til þeirra?
  3. Ef útlitsmiðað.. Þá hvað annað skiptir máli í fari þessarar manneskju?
  4. Hvað skiptir máli í fari annarra - hvað finnst mér merkilegt og skipta máli þegar ég hugsa um aðra?
  5. Hvaða nýjar eða fleiri fyrirmyndir get ég valið mér sem fyrirmyndir í lífinu?