Fyrirmyndir
Fyrirmyndir geta verið jákvæð hvatning til þess að leggja hart að sér. Þær geta gefið vísbendingar um gildi okkar og þær sýna okkur oft fram á hvert hægt er að ná. Fyrirmynd er einhver sem við dáumst að og lítum upp til. Við eigum það til að bera okkur saman við fyrirmyndir. Þær geta hvatt okkur til dáða en þær geta líka orðið til þess að okkur finnist við ekki nógu góð ef við teljum okkur ekki standast samanburðinn. Markmið þessa verkefnis er að skoða fyrirmyndir barnsins. Kanna hvaða eiginleika barnið dáist að í fari fyrirmyndar sinnar og hvernig það telur að það standist samanburðinn. Oft kemur í ljós að börn (og fullorðnir) velja bara augljósa eiginleika s.s. líkamsvöxt, söngrödd eða galdrahæfileika sem verður til þess að ýta undir þá hugmynd að aðrir séu ,,betri” en við. Ef barnið kemur bara auga á eiginleika sem það á ekki sameiginlega með fyrirmyndinni er markmið æfingarinnar að skoða fyrirmyndina nánar og sjá hvort hún eigi sér ekki fleiri hliðar. Þannig aukum við líkur á að barnið átti sig á því að fyrirmyndir eru líka manneskjur með kosti og galla sem við deilum jafnvel með þeim. Gott er að biðja barnið um að koma með dæmi um þá eiginleika sem það tengir við sig.
Athugið að allar fyrirmyndir búa yfir mannlegum eiginleikum sem við getum tengt við. Ef barnið veit ekkert annað um Messi en það að hann er góður í fótbolta og barnið er sjálft í D liði í sínum flokki, er mælt með að farið sé í heimildaleit um Messi og kannað hvernig hann var sem barn. Hvað aðrir segja um hann, hvort hann hafi lent í erfðleikum o.s.frv. Hið minnsta væri hægt að segja að hann eigi stundum erfitt með að tapa og mögulega tengir barnið við það.
Þetta er samtalsverkefni og gott ef foreldrið reynir að ræða líka sínar eigin fyrirmyndir í lífinu.
Verkefnið:
Fyrirmynd er einhver sem þú lítur upp til því þér finnst hann eða hún vera þrautseig, þrjósk, sterk, dugleg, klár, hugrökk, fyndinn eða eitthvað annað flott eða merkilegt.
Ræðið þessar spurningar? Skrifið svörin niður á blað og takið ykkur góðan tíma til að velta þessu fyrir ykkur. Verkefnið er samtal og þið notið spurningarnar til að aðstoða við það. Það hjálpar oft ef foreldrið talar um eigin fyrirmyndir eða jafnvel þær fyrirmyndir sem það átti í æsku.
- Hverjar eru þínar fyrirmyndir?
- Af hverju?
- Hvað er líkt mér þér og fyrirmyndum þínum?
- Ef þið gerðuð verkefnið um gildi sem er í þessari verkfærakistu - getið þið nefnt hvort fyrirmyndir þínar og þið deilið sömu eða svipuðum gildum í lífinu?
- Hvernig fyrirmynd ertu sjálf/ur fyrir aðra? Hvernig fyrirmynd viltu vera?