Stundum getur verið gott að eiga samtal um hvernig barnið þitt skilur vináttu – hvað er góð vinátta (hægt að nota önnur verkefni í þessari verkfærakistu).  Út frá því samtali getum við séð hvort barnið þitt sé að skilja vináttusamböndin sín rétt. Til dæmis getur komið í ljós að einhver sem barnið þitt heldur að sé vinur er í raun kunningi. Barnið getur upplifað mikil vonbrigði að sjá að mögulega er það svo. Þá er gott að skoða beint tilfinningarnar sem koma upp og tala um þær – „hvernig líður þér að sjá að það sem þú vilt og það sem er passar ekki saman? – „Hvað þarf manneskja að gera til að sýna þér að hún er vinur og hvernig sérðu ef hún er það ekki?“. Hugmyndin er að eiga þetta samtal til að hjálpa þeim að sjá að vinátta verður að ganga í báðar áttir – og ef hún gerir það ekki þá er það ekki endilega út af því að það er verið að hafna þeim – eða vegna þess að það er eitthvað að þeim – þessar manneskjur passa bara ekki saman.

Það er líka hægt að ræða um hugtakið „kaldur og heitur vinur“. Þá er átt við að sumir vinir eru stundum mjög skemmilegir og hlýjir en stundum bara alls ekki. Þá hefur barnið þitt tvo möguleika. Þegar þessi vinur er „heitur“ þá er um að gera að njóta þess en þegar hann er „kaldur“ þá er hægt að æfa í að setja mörk og sjá hvort hegðun vinarins breytist. Til dæmis er hægt að segja: „mér finnst þetta ekki skemmtilegt“ eða „mér finnst leiðinlegt þegar þú kallar mig þetta/hagar þér svona/gerir þetta“. Svo er hægt að snúa sér bara að öðrum vinum og leyfa hlutunum að þróast. Aðalatriðið er að barnið þitt fari ekki í meðvirknihegðun og geri allt til að þóknast vinumþegar hann er í „kalda“ ástandinu eða kenni sér um þá hegðun.

Ef vináttan er augljóslega ekki heilbrigð er hægt að ræða það sem er að gerast innra með barninu þínu í stað þess að láta samtalið snúast um að sannfæra barnið um að láta þennan vin eiga sig. Hægt er að segja eitthvað eins og „það virðist vera sem að partur af þér vilji vera með þessum vin en annar partur af þér veit að þegar þú gerir það þá líður þér mjög oft ekki vel á eftir – reynum að skilja hvað gæti verið í gangi“.

Á sama tíma getur verið gott að tala um hversu mikið börn vaxa og dafna – og breytast. Vinátta sem var ekki að ganga upp á grunnstigi getur algjörlega gengið upp á miðstigi.

Svo er mikilvægt að muna að þó þú þurfir oft að aðstoða barnið þitt félagslega þá þarftu líka að leyfa barninu að sjá um að velja vini sína og takast á við erfiðleikana eins oft og hægt er á eigin spýtur.

 

Byggt að hluta á grein eftir barnasálfræðinginn Phyllis L. Fagell.